Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa gefið Sjálfstæðisflokknum allt of mikil völd í gegnum tíðina. Í krafti 30 prósent fylgis hefur hann setið í allt of mörgum ríkisstjórnum; þrátt fyrir að 70 prósent þjóðarinnar hugnist hvorki viðhorf hans, né stefna.
Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í stefnuræðu sinni rétt í þessu á landsfundi flokksins sem haldinn er um helgina.
Hann segir ennfremur að það sama sé upp á teningnum í mörgum sveitarstjórnum. Félagshyggjuflokkar verði að átta sig á þessu og leita allra mögulegra leiða til að vinna saman.
„Þannig tökumst við best á við flókna og breytta framtíð og tryggjum almenningi betri lífskjör. Okkur greinir vissulega á um fullt af hlutum en um stór mál getum við sameinast. Ég nefni aukin jöfnuð, sterkt opinbert mennta- og heilbrigðiskerfi, réttlátt afgjald af auðlindum og nýja stjórnarskrá.
Ef okkur auðnast þetta ekki höldum við áfram að vera á víxl, fylgitungl Sjálfstæðisflokksins, með vel þekktum afleiðingum, bæði fyrir flokkana en sérstaklega fyrir samfélagið. Þessu ætlum við að breyta,“ segir Logi.
Eignaójöfnuður vandamál
Logi segir að tekjujöfnuður á Íslandi sé með því sem mesta sem gerist í heiminum, jafnrétti kynjanna sömuleiðis og aðbúnaður almennings allur annar. Þetta sýni að það sé hægt að breyta hlutum til hins betra. En þó að almenn lífskjör hafi batnað mikið, sé enn mikið ógert og þá skiptir máli hvaða flokkar stjórni.
„Við lifum hvorki né hrærumst í meðaltölum eða vísitölum. Hver og einn sem getur ekki framfleytt sér skiptir máli. Mikill fjöldi venjulegs launafólks, aldraðra og öryrkja á nær ekki endum saman og þarf jafnvel að neita sér um læknisþjónustu eða annað sem telst til sjálfsagðra hluta í dag. Eignarstaða ungs fólks er slæm og margar barnafjölskyldur hrekjast um á dýrum og ótryggum leigumarkaði, með vondum afleiðingum fyrir fjölskyldulífið og börnin,“ segir hann.
Jafnvel þó það sé nauðsynlegt að hækka laun og lífeyri þeirra verst settu segir tekjujöfnuður aðeins hluta sögunnar. Eignaójöfnuður sé alvarlegt vandamál í heiminum en í dag eigi til dæmis 5 prósent Íslendinga jafn miklar eignir og hin 95 prósentin. Þessi ójöfnuður sé stöðugt að aukast og auðurinn færist auk þess á æ færri hendur.
„Samhliða þessari gríðarlegu samþjöppun auðs hafa þeir eignamestu hreiðrað um sig á öllum sviðum samfélagsins samtímis. Í útgerð, bönkum, orkufyrirtækjum, tryggingarfélögum dagblöðum og nú síðast á húsnæðismarkaði,“ segir Logi.
Ríkisstjórnin stendur ekki við loforð sín
Logi segir jafnframt að hingað til bendi ekkert til þess að núverandi ríkisstjórn ætli að ráðast gegn aukinni misskiptingu. Og raunar segi í nýlegri ályktun miðstjórnar ASÍ: „Í rannsókn hagdeildar ASÍ á þróun skattbyrði launafólks síðastliðin 20 ár kemur skýrt fram að skattbyrði launafólks hefur aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar eru lægri. Það eru því mikil vonbrigði að ekki sé brugðist við þessari þróun í fjárlagafrumvarpinu heldur þvert á móti haldið áfram á sömu braut með því að lækka útgjöld til barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta. Tekjuójöfnuður mun halda áfram að aukast þar sem dregið er enn frekar úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins.“
Og það sem verra er, að mati Loga, þá skilar ríkisstjórnin auðu þegar kemur að þeim verst settu, öldruðum, öryrkjum og ungum barnafjölskyldum. Hann segir að þau séu látin bíða áfram. Ekki sé staðið við margítrekuð loforð um að styrkja innviði og almannaþjónustu. Ríkisstjórnin bjóði hvorki upp á trúverðuga lífskjarasókn eða leið til aukins félagslegs stöðugleika.
Ábyrgðinni á hvoru tveggja sé varpað yfir á stéttafélög. Það félagslega öryggi, sem er talið sjálfsagt í nágrannalöndunum, ætli ríkisstjórnin að nota sem skiptimynd í kjarasamningum. En það sem valdi ekki síst áhyggjum sé efnahagsstjórnin. Til þess að ráðast í velferðar útgjöld þurfi að afla varanlegra tekna. Ekki freistast til þess að nota forðann, sem sé jafn hverfull og íslenskt veður.
Afleiðingjunum velt yfir á næstu ríkisstjórn
Logi telur að á toppi hagsveiflu sé réttur tími til þess að auka tekjur og nota þær til að jafna kjörin og styrkja velferðina. Það sé auk þess skynsamlegt, til þess að lækka vexti, halda aftur af verðbólgu og milda næstu niðursveiflu, Ef þetta er ekki gert, og þegar hin mögru ár koma, hafi reynslan kennt okkur að það fyrsta sem lendir undir hnífnum er velferðin.
„Ríkisstjórnin ætlar sem sagt að setjast í sófann, éta úr ísskápnum og hirða ekki um að fara út og draga björg í bú. Afleiðingum þess er velt yfir á næstu ríkisstjórn. Auk þessa gefur hún eftir yfir 20 milljarða króna frá síðustu framlögðu fjárlögum. Þær tekjur hefðu sannarlega nýst til aðgerða gegn fátækt,“ segir hann.
Afleiðingarnar séu fyrirsjáanlegar, meðal annars þær sem Seðlabankinn nefnir: „Minna aðhald í ríkisfjármálunum mun því óhjákvæmilega hafa í för með sér að vextir og gengi krónunnar verða hærri en ella hefði orðið.“
Lykillinn að ná góðum samningi við Evrópusambandið
Logi segir að forsenda þess að hægt sé að tryggja gott velferðarkerfi sé traust og og líflegt atvinnulíf, byggt á frumkvæði einstaklingsins og frjálsri samkeppni.
Hagsmunir þess og almennings séu best tryggðir með auknum samskiptum við umheiminn. Hann segir að Íslendingar þurfi að ná góðum samningi við Evrópusambandið og taka upp stærri og stöðugri gjaldmiðil í fyllingu tímans.
„Það er einn helsti lykillinn að því að því að búa fjölskyldum öryggi og framsæknum fyrirtækjum viðunandi skilyrði. Við verðum að vera nógu skynsöm til að horfa til framtíðar og nógu djörf til að fjárfesta í henni,“ segir hann.
Róttækar breytingar á skattakerfinu
Logi telur að skoða þurfi róttækar breytingar á skattkerfinu, til að hindra að ágóðinn af tækniþróuninni verði ekki allur eftir hjá fyrirtækjunum. Slíkt mundi leiða til þess að stjórnvöld réðu ekki við að halda upp öflugu velferðarkerfi og bilið milli þeirra efnameiri og snauðu, næði áður óþekktum hæðum. Íslendingar verði að sjálfsögðu að vinna sína heimavinnu en útilokað sé að mæta þessari áskorun nema í víðtæku alþjóðlegu samstarfi.
Hins vegar verði Íslendingar að fjárfesta miklu meira í menntun. Skólastarf þurfi að taka mið af þessari nálægu framtíð. Menntun verði hluti af tilverunni, með einum eða öðrum hætti alla ævi, og Íslendingar verði að leggja enn meiri áherslu á tæknigreinar, skapandi skapandi hugsun; líka menningu og listir.
Ríkt land eins og Ísland á að gera betur
Logi segir að Íslendingar þurfi líka að glíma við flóknari siðferðisspurningar. Hver er réttur okkar til einkalífs, upplýsinga og hver er réttur mismunandi hópa til að viðhalda menningu sinni og trú?
Hann spyr sig hvort Íslendingar eigi, og hversu mikið þá, að leggja að mörkum til þess hluta jarðarbúa sem býr við hungur, er á flótta undan hörmungum og stríði eða eru í örvæntingarfullri leit eftir öryggi og betra lífi. Hann segir að svarið sé já, auðvitað og ríkt land eins og Ísland eigi að gera miklu betur. „Við stöndum einnig frammi fyrir þeirri staðreynd að farsæl framtíð mannkyns er háð því að við lítum á hvert annað sem systkin og eigum allt undir því að vinna saman. Tilbúin landamæri, trú eða litarháttur fá engu um það breytt,“ segir hann.
„Þær fréttir berast frá nágrannalöndum okkar að setja eigi lög, sem brjóta gróflega mannréttindi á stórum hópum. Jafnvel systurflokkur okkar í Danmörku hefur boðað stefnu sem er í mörgu mannfjandsamleg. Við skulum einsetja okkur að falla aldrei í þá freistni að gefa afslátt af mannúð, í örvæntingafullri tilraun til að stækka flokkinn.“
Ennfremur telur hann að stærsta og augljósasta fyrsta skrefið til að siðvæðingar stjórnmála og samfélagsins sé að breyta stjórnarskránni, þannig að hún byggi á tillögum stjórnlagaráðs. „Við skulum beita okkur fyrir því,“ segir hann.