Embætti forstöðumanns Kvikmyndasjóðs verður ekki auglýst laust til umsóknar, eins og hagsmunaaðilar í greininni hafa hvatt til, vegna mistaka sem gerð voru í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, og staðfestir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þetta við blaðið.
Í Fréttablaðinu hinn 24. janúar var greint frá því að hagsmunaaðilar í kvikmyndaiðnaðinum hefðu skorað á mennta- og menningarmálaráðherra að auglýsa starf forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands laust til umsóknar áður en skipunartími Laufeyjar Guðjónsdóttur rynni út.
Ef auglýsa á starfið þarf, samkvæmt 23. grein laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, að tilkynna núverandi forstöðumanni það sex mánuðum áður en skipunartíminn rennur út.
Vegna mistakanna sem Lilja vísar
til í viðtali við Fréttablaðinu verður staðan ekki auglýst. „Þau
felast í því að í bréfi menntamálaráðuneytisins
sem dagsett var 8.
ágúst 2007 var skipunartími Laufeyjar
sagður framlengjast til 17.
ágúst 2013 í stað 17. febrúar 2013
eins og hefði átt að vera. Sú lokadagsetning
var skráð í ráðuneytinu.
Endurskipan Laufeyjar árið 2013
var svo skráð 17. ágúst 2013 til 17.
ágúst 2018, en hefði átt að vera til
17. febrúar. Þetta þýðir að það hefði
átt að vera búið að auglýsa stöðuna
fyrir 17. ágúst á síðasta ári en ekki
17. febrúar síðastliðinn.
Ráðuneytið telur sig eiga að bera
hallann af mistökunum. Því framlengist
ráðningartími Laufeyjar
sjálfkrafa til ársins 2023. Ráðuneytið
fékk auk þess utanaðkomandi lögfræðiálit
sem staðfesti þessa túlkun,“ segir í Fréttablaðinu.
Lilja segir við Fréttablaðið að hún telji það eðlilegast, að auglýsa störf forstöðumanna ríkisstofnanna, til að tryggja faglegt mat. Í þessu tilfelli hafi staðan sem uppi var, komið í veg fyrir að það hafi verið hægt.