Sjálfstæðisflokkurinn vill gera stórátak í samgöngumálum í Reykjavík svo minnka megi tafir í umferðinni. Þetta kemur fram í Reykjavíkursáttmála sem samþykkur var á Reykjavíkurfundi sem haldinn var í Valhöll í gær. Vörður fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík stóð fyrir fundinum en á annað hundrað manns sóttu fundinn.
Samkvæmt sáttmálanum þarf að bæta þjóðvegi í Reykjavík í samstarfi við ríkið svo hættulegum gatnamótum fækki. Segja þurfi upp samningi við ríkið um framkvæmdarstopp svo ljúka megi löngu tímabærum endurbótum á gatnakerfinu og efla strætó og gera hann þjónustuvænni svo almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur fyrir fleiri.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að skoðaðir verði möguleikar á samgöngumiðstöð við Kringluna. Ennfremur segir í sáttmálanum að bæta þurfi ferðaþjónustu aldraðra og fatlaðra og að lokið verði þeirri uppbyggingu á Landspítalalóð sem komin er á framkvæmdastig.
Fækka borgarfulltrúum úr 23 í 15
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér að einfalda stjórnkerfi borgarinnar og bæta þjónustu við íbúana með styttri boðleiðum. Í sáttmálanum segir að stjórnkerfið eigi að þjóna íbúum Reykjavíkur. Jafnframt skuli fækka borgarfulltrúum úr 23 í 15.
Rekstrarstaðan verði meðal annars styrkt með auknu framboði lóða og hætta skuli skuldasöfnun og álögur á borgarbúa lækkaðar. Aðalskipulag verði tekið upp strax í upphafi nýs kjörtímabils.
Reykjavíkurborg skuli jafnframt tryggja nægjanlegt framboð af lóðum. „Við Keldur rís fjölskylduvænt hverfi. Nýstárleg og spennandi byggð rís í Örfirisey. Áhersla er á að klára uppbyggingu í Úlfarsárdal. Hafin verður vinna við skipulagningu byggðar í Geldinganesi,“ segir í sáttmálanum.
Innviðagjald fellt niður
Sjálfstæðisflokkurinn vill að innviðagjald verði fellt niður og að lögð verði áhersla hagkvæma íbúðakosti. Í sáttmálanum segir að Reykjavíkurborg þurfi að endurheimta stöðu sína sem besti kostur fyrir nýsköpun og atvinnurekstur. Ennfremur segir að farið verði í staðarvalsgreiningu fyrir framtíðaruppbyggingu sjúkrahúsþjónustu í borginni og að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni þar sem ekki liggi fyrir annar kostur.
Flokkurinn vill að sveigjanleiki milli skólastiga verði aukinn og valkostum fjölgað í rekstrarformi. „Styrkja þarf lestrarnám í samvinnu við kennara. Gera þarf sérstakt átak í málefnum barna af erlendum uppruna. Farið verður í átak til að draga úr manneklu með því að bæta starfsumhverfi og auka sveigjanleika í starfi. Börnum frá 12 mánaða aldri verði tryggt pláss í leikskóla eða hjá dagforeldrum,“ segir í sáttmálanum.
Fimmtán metra tunnuskattur afnuminn
Flokkurinn vill gera átak í umhverfismálum og auðvelda flokkun á sorpi. Sorphirðudögum verði fjölgað og fimmtán metra tunnuskattur afnuminn. Hætt verði að nota plast í stofnunum borgarinnar þar sem mögulegt er. Jafnframt segir í sáttmálanum að þrif á götum og opnum svæðum þurfi að stórauka.