Primum non nocere – framar öllu, ekki skaða – eru gömul gildi læknisfræðinnar. Öll börn eiga rétt á því að vera varin gegn ónauðsynlegum skurðaðgerðum. Vonandi tekst okkur Íslendingum það sem öðrum þjóðum hefur enn ekki tekist, það er að vernda börn fyrir umskurði með lagasetningu.
Þannig ljúka Jórunn Viðar Valgarðsdóttir, heimilislæknir hjá HSU á Selfossi, og Hannes Sigurjónsson, lýtalæknir hjá Karolinska háskólasjúkrahúsinu í Stokkhólmi, ritstjórnargrein sinni í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Ástæða skrifanna er nýlegt frumvarp til laga á Alþingi þar sem lagt er til að hegningarlögum verði breytt á þann veg, að í stað orðsins „stúlka“ yrði ritað „barn“. Ef frumvarpið verður að lögum verður ólöglegt og refsivert að framkvæma umskurð á drengjum nema læknisfræðileg ábending liggi fyrir.
Í greininni kemur fram að umskurður drengja feli í sér brottnám á heilbrigðum vef og hættu á ýmsum fylgikvillum. Aðgerðin sé í flestum tilfellum gerð af trúarlegum og/eða menningarlegum ástæðum á nýfæddum eða ungum drengjum en sé sjaldnar beitt í læknisfræðilegum tilgangi.
Margir þekktir fylgikvillar umskurðar
Jórunn og Hannes segja að rannsóknir á jákvæðum áhrifum umskurðar og leiðbeiningum sem styðja umskurð hafi verið gagnrýndar fyrir aðferðafræðilega galla og menningarlega hlutdrægni. Kerfisbundin yfirlitsgrein frá árinu 2010 sýni að þekktir fylgikvillar umskurðar séu meðal annarra blæðing, sýking, skyntap, áverki á þvagrás, þrenging þvagrásarops, opnun sára og drep í getnaðarlim að hluta eða öllu leyti. Jafnframt hafi dauða í kjölfar umskurðar verið lýst.
Þau benda á að forhúðin, sem er að miklu eða öllu leyti fjarlægð við umskurð, gegni hlutverki meðal annars þegar kemur að vörn fyrir þvagrásaropið og kóng getnaðarlimsins. Forhúðin sé einnig talin mikilvæg þegar kemur að kynörvun og kynlífi og sé næmasti hluti getnaðarlimsins. Snertiskyn getnaðarlimsins minnki ennfremur við umskurð.
„Öðrum óæskilegum áhrifum, líkamlegum og sálrænum, hefur verið lýst hjá fjölda umskorinna karlmanna. Nýleg dönsk rannsókn sýndi fram á að einungis 1,7 prósent drengja sem ekki voru umskornir við 0-18 ára aldur þurftu skurðaðgerð vegna of þröngrar forhúðar,“ segir í greininni.
Læknum ber skylda til að standa vörð um réttindi sjúklinga
Jórunn og Hannes segja að umskurður drengja hafi lengi verið siðfræðilegt álitamál og að trúfrelsi foreldranna hafi verið notað sem rök fyrir því að láta barnið gangast undir umskurð. Þau telja hins vegar að læknum beri skylda til þess að standa vörð um réttindi sjúklinga, í þessu tilfelli barnsins, og verja gegn ónauðsynlegri meðferð, hverjar svo sem óskir foreldra og trúarleiðtoga eru.
„Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi árið 2013. Barnasáttmálann má túlka þannig að réttur barns til líkamlegrar friðhelgi sé sterkari en réttur foreldra til að velja menningar- og/eða trúarlegar athafnir, í þessu tilviki skurðaðgerð handa barni sínu. Auk þess hafa umboðsmenn barna á Norðurlöndum hvatt til þess í sameiginlegri ályktun að umskurður drengja verði bannaður,“ segja þau.
Læknar lýst yfir stuðningi við frumvarpið
Á fimmta hundrað íslenskra lækna skrifuðu undir yfirlýsingu til stuðnings frumvarpisins og birtu þann 21. febrúar síðastliðinn.
Í yfirlýsingunni segir að málið hafi ýmsar hliðar en sé að þeirra mati ekki flókið. „Allar aðgerðir, sama hversu tæknilega einfalt er að framkvæma þær, hafa mögulega fylgikvilla sem ber að vega móti ávinningi þeirra. Læknisfræðilegar ábendingar fyrir umskurði eru til, en þær eru fáar. Við teljum að án slíkra ábendinga gangi umskurður á ungbörnum gegn Genfaryfirlýsingu lækna og samræmist því síður grundvallarviðmiðum Helsinki-yfirlýsingar lækna um réttinn til sjálfsákvörðunar og upplýsts samþykkis.
Við tökum heilshugar undir niðurstöður kollega okkar sem birtust í tímariti bandarísku barnalæknasamtakanna AAP í apríl 2013, að umskurður hraustra sveinbarna í vestrænum samfélögum hafi engin markverð heilsueflandi eða fyrirbyggjandi áhrif en valdi þvert á móti sársauka, geti leitt til alvarlegra, jafnvel langvarandi fylgikvilla, brjóti gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sé í blóra við Hippokratesareiðinn: „Primum non nocere” - umfram allt ekki skaða,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.
Siðferðileg álitamál reifuð
Siðfræðistofnun efnir til hádegisfundar í sal 132 í Öskju á morgun, þriðjudaginn 6. mars, kl. 12 og verður umræðuefnið siðferðileg álitamál varðandi umskurð drengja og frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum um bann við þeim verknaði.
Salvör Nordal, Umboðsmaður barna, Jón Ólafsson, heimspekingur og prófessor við íslensku og menningardeild Háskóla Íslands og Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands, munu flytja stuttar framsögur. Að loknum framsögum verða almennar umræður.