Sjö prósentum færri treysa dómskerfinu nú en fyrir ári síðan. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Nú segjast 36 prósent treysta dómskerfinu en á sama tíma í fyrra voru það 43 prósent.
Traust á Alþingi hefur aukist á árinu, nú segjast 29 prósent treysta Alþingi en þingið hafði 22 prósenta traust fyrir ári.
Þjóðkirkjan og lögreglan hafa glatað mestu trausti eða 8 prósentustigum. Lögreglan er þó enn með mikið traust, en nú segjast 77 prósent treysta lögreglunni en áður voru það 85 prósent. Þjóðkirkjan hins vegar mælist ekki með nema 30 prósenta traust, úr 38 prósentum.
Langflestir bera traust til Landhelgisgæslunnar eða 91 prósent og þar á eftir kemur embætti forseta Íslands með 80 prósenta traust.
Traust til heilbrigðiskerfisins mælist hærra en í fyrra og það sama má segja um þær fimm stofnanir sem mælast með minnst traust, sem eru umboðsmaður skuldara, Alþingi, Fjármálaeftirlitið, borgarstjórn og bankakerfið.