Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þegar tilkynnt um 25 prósent innflutningstolla á stál og 10 prósent á ál. Í baklandi Repúblikana er megn óánægja með þessar hugmyndir og fer Paul Ryan þar fremstur í flokki, samkvæmt umfjöllun New York Times.
Markmið þessara hækkana er að efla stál- og áliðnað í Bandaríkjunum, og reyna þannig að skapa störf í Bandaríkjunum sem annars færu annað.
Bandaríkin flytja inn um fjórfalt meira af stáli og áli heldur en þau flytja út, og því gætu tollarnir komið illa við ýmsan iðnað í Bandaríkjunum, í það minnst í fyrstu. Áhyggjuraddir innan Repúblikana enduróma það sem komið hefur frá bílaiðnaðinum og hergagnaframleiðendum, en þeir óttast að tollarnir hækki kostnað og dragi úr samkeppnishæfni.
Þá snúa áhyggjurnar líka af því, að breytingarnar muni haf víðtæk efnahagsleg áhrif, ekki aðeins í Bandaríkjunum, heldur víða um heiminn. Inngrip eins og þessi, geti raskað jafnvæginu í efnahagsmálum og skapað mikil vandamál.
Samkvæmt umfjöllun New York Times ætlar Trump ekki að bakka með þessar risavöxnu aðgerðir, og hefur boðað frekari tollavernd fyrir bandarískan bílaiðnað, og vill hækka tolla á innflutning bíla frá Evrópu og Asíu. Nákvæmar útlistanir á þeim hugmyndum hafa þó ekki komið fram.