Tillaga um vantraust á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra var felld á Alþingi, rétt í þessu. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var fyrsti flutningsmaður tillögunnar, en Samfylkingin og Píratar stóðu að henni.
Atkvæði féllu þannig að 33 voru á móti tillögunni, 29 meðfylgjandi og einn sat hjá, Bergþór Ólason Miðflokki.
Tveir þingmenn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, studdu tillögu um vantraust, en aðrir stjórnarþingmenn voru á móti.
Tillagan var sett fram vegna þess að ólöglega hefði verið staðið að skipan 15 dómara við Landsrétt, eins og staðfest hefur verið með dómi Hæstaréttar, og að ráðherra yrði að axla ábyrgð á þeirri niðurstöðu.
Nokkuð harkalega var tekist á um þessi mál á Alþingi, en Sigríður sagði meðal annars í lok ræðu sinnar, að það yrði í „minnum haft“ hvernig þingmenn myndu greiða atkvæði um þessa tillögu á Alþingi.
Þingmenn stjórnarandstöðunn brugðust illa við þessum ummælum, og sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, að ráðherra ætti ekki að hafa í hótunum vegna þessa máls. Það væri öllum þungbært, en Þorgerður Katrín studdi tillögu um vantraust eins og félagar hennar í þingflokki Viðreisnar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ítrekaði stuðning sinn við ráðherra, og taldi ekkert nýtt hafa komið fram í málinu, sem gerði það að verkum, að rétt væri að samþykkja vantraust gagnvart ráðherra. Þvert á móti væri málið þannig, að legið hefði fyrir, frá því það var fyrst til umfjöllunar í þinginu, að málsmeðferðin hefði átt að vera önnur og betri. Sagðist hún sjálf hafa bent á þau atriði sem Hæstiréttur síðan dæmdi um, er vörðuðu rannsóknarskyldu við mat á umsækjendum um starf dómara.
Hún sagðist ekki hafa stutt það, að þetta væri ástæða til afsagnar, þegar málið var fyrst til umræðu, og það sama ætti við núna. Hún ítrekaði þó, að mikilvægt væri að bæta ferlið við skipan dómara og læra af málinu.