Vantraust á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra er umfjöllunarefni sjónvarpsþáttar Kjarnans sem frumsýndur verður klukkan 21 á Hringbraut í kvöld. Gestur þáttarins eru Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks. Viðmælendurnir tókust hart á um ýmis efnisatriði málsins líkt og sjá má í stiklu í spilaranum hér að ofan.
Á meðal þess sem rætt er í þættinum er hvort að stuðningur fleiri þingmanna Vinstri grænna á vantraust á einn ráðherra hefði þýtt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ganga frá ríkisstjórnarborðinu, hvort réttlætanlegt væri að beita vantrauststillögu sem pólitísku vopni þegar augljóst væri að hún yrði ekki samþykkt og hvort að stjórnarmeirihlutinn hafi skroppið saman í 33 þingmenn í gær þegar Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn Vinstri grænna, studdu vantraust á dómsmálaráðherra.
Þá takast viðmælendurnir á um hvaða ástæður liggi að baki því að dómsmálaráðherra sitji sem fastast þrátt fyrir að hafa brotið gegn stjórnsýslulögum, að yfir 70 prósent landsmanna vilji afsögn hennar og að traust á dómstóla hafi fallið mikið á þeim tíma sem Sigríður hefur gegnt embættinu.