Orkustofnun hefur afturkallað leyfi Eykon Energy til olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu á þeim grundvelli að félagið hafi hvorki tæknilega né fjárhagslega getu til að takast eitt á við kröfur og skilmála leyfisins eða vera rekstraraðili þess. Þannig uppfylli félagið ekki skilyrði kolvetnislaga. Þetta kemur fram á heimasíðu Orkustofnunar.
Félögin CNOOC Iceland ehf. og Petoro Iceland AS hafa áður dregið sig út úr leyfi til olíuleitar og vinnslu á svæðinu.
Í fréttinni segir að stofnunin telji sér ekki heimilt að verða við þeirri ósk Eykon Energy ehf. að félagið fái sérstakan frest til að finna sér nýjan rekstraraðila til samstarfs um olíuleit á Drekasvæðinu. Það bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins og ákvæði kolvetnislaga, að veita nýjum aðila forgang að sérleyfi á Drekasvæðinu, án auglýsingar. Að jafnaði skal auglýsa eftir umsækjendum, áður en leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetnum er veitt.
Orkustofnun hefur í bréfi sínu í dag til Eykon Energy ehf. bent á að finni félagið samstarfsaðila eða ef aðrir mögulegir áhugaaðilar um leit og vinnslu kolvetna á Drekasvæðinu óski þar eftir sérleyfi, muni Orkustofnun ígrunda að birta auglýsingu um skilmála nýrra leyfa á lögformlegan hátt. Svæðið yrði þá opið til umsókna, í samræmi við ákvæði kolvetnislaga, án sérstaks útboðs.
Í samtali við mbl.is í janúar á þessu ári sagði Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og stjórnarformaður Eykon, að samstarf félags hans, CNOOC og Petoro hafi verið til fyrirmyndar, þar til tvö síðarnefndu fyrirtækin drógu sig út úr leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni á Drekasvæðinu.
Á þessum tíma tilkynnti Orkustofnun Eykon niðurstöðu sína, sem nú hefur verið staðfest og leyfið afturkallað. Heiðar sagði í janúar að Eykon hafi þá þegar byrjað hafa samband við stórfyrirtæki í olíuleit og fyrirtækið sé ósammála mati Orkustofnunar að það geti ekki haldið áfram með leyfið. „Mér finnst Orkustofnun vera að reyna að loka þessu máli frekar en að leyfa því að halda áfram sem mér fyndist heppilegra fyrir land og þjóð,“ sagði Heiðar og sagðist ekki ætla að leggja árar í bát - hann væri alltaf bjartsýnn.
Þrjú sérleyfi voru árið 2013 veitt til leitar og vinnslu á olíu á Drekasvæðinu. Þeim hefur nú öllum verið annað hvort skilað til stjórnvalda eða afturkölluð.