Þegar eldra fólk kemur inn á öldrunardeild vegna öldrunar og í viðtali kemur í ljós að drykkja er vandamál getur verið bæði erfitt og viðkvæmt að ræða það. Heilbrigðisstarfsfólk veigrar sér stundum við því en ef þetta er rætt af nærgætni og viðkomandi er boðið úrræði vill hann eða hún langoftast þiggja þær lausnir. Þetta segir Hildur Þórarinsdóttir öldrunarlæknir sem starfar í hálfu starfi við öldrunardeild Landspítala á Landakoti og er jafnframt í hálfu starfi á Sjúkrastöðinni Vogi þar sem afeitrun og meðferð einstaklinga með fíknsjúkdóma fer fram.
Þetta kemur fram í viðtali við Hildi í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Í viðtalinu segir Hildur að eldra fólk sé alveg jafn getumikið til að taka nauðsynlegum breytingum eins og yngra fólkið og jafnvel enn tilbúnara til þess þar sem það sé oft orðið algjörlega uppgefið á sér og vill gera allt til að losna frá þessu. „Stundum virkar meðferð jafnvel betur á eldra fólk en hina yngri af þessu ástæðum. Vissulega eru þeir til sem vilja ekki viðurkenna vandann eða átta sig hreinlega ekki á honum, nú eða vilja ekki hætta að drekka. Þetta eru þeir sem eru til vandræða fyrir alla; aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk,“ segir hún.
Hildur segir í viðtalinu að fyrir utan Vog sé fátt um úrræði sem hægt er að vísa fólki til. „Læknar veigra sér jafnvel við að opna þessa umræðu við skjólstæðing þar sem þeir vita að fá úrræði eru til staðar. Ef hins vegar sjúklingur er með færri en 6 skilmerki nægir oft samtal við lækni og almenn fræðsla til að sjúklingur breyti hegðun sinni.“
Áfengisneysla kvenna sérstaklega aukist
Hún telur að aukið aðgengi að áfengi sé ávísun á stærri vanda. „Ég vil alls ekki að áfengi verði selt í almennum verslunum. Þá þarf meiri fræðslu til almennings um skaðsemi áfengis og hversu mikið eða lítið magn áfengis telst í lagi. Það er ekki í lagi heilsunnar vegna að drekka tvo drykki á dag alla daga. Við læknar þurfum að taka okkur á í að spyrja út í drykkjuvenjur fólks þegar það kemur til okkar með einhver vandamál. Löggjöfin þarf líka að vera afdráttarlaus og skýr hvað varðar auglýsingar áfengis, aðgengi og umgengni við áfengi,“ segir hún.
„Aldurspíramídi þjóðarinnar er að breytast og öldruðum er að fjölga en jafnframt er áfengisneysla almennt að aukast. Það má sjá á sölutölum og tölum Hagstofu. Þá hefur áfengisneysla beggja kynja aukist talsvert, sérstaklega kvenna, en konur drukku minna áður. Þetta má sjá á tölum frá ÁTVR og Embætti landlæknis. Síðan er augljóst öllum sem vinna á bráðamóttöku og öðrum deildum sjúkrahússins að komur þangað eru oft í beinum tengslum við neyslu eða afleiðinga hennar, hvort sem um er að ræða áfengi, önnur vímuefni eða ávanalyf,“ segir Hildur.
Í viðtalinu segir hún ennfremur að á öldrunardeildunum séu þau ekki laus við vandann. Það komi fyrir að fólk sé beinlínis lagt inn vegna afleiðinga áfengisdrykkju og geti jafnvel ekki verið heima þess vegna.
Sumum ekki hægt að sinna vegna áfengisdrykkju
Hildur segir þetta sorglega hringrás í mörgum tilfellum þar sem aldraður einstaklingur kemur inn vegna áfengisdrykkju, hann nær að jafna sig og fær nokkra endurhæfingu þar til hann getur snúið heim aftur. „Þá fer allt aftur fljótlega í sama farið. Heimahjúkrun er stundum í vandræðum með suma einstaklinga. Það er ekki hægt að sinna þeim á heimili þeirra vegna áfengisdrykkju.
Ragnheiður Halldórsdóttir gerði fyrir nokkrum árum óformlega könnun á því hversu margir af sjúklingum K2 endurhæfingardeildarinnar væru þar vegna afleiðinga áfengisneyslu eða ávanalyfja. Það reyndist hátt í helmingur. Það hafa aldrei verið gerðar ítarlegar kannanir á því hversu stórt hlutfall þetta í rauninni er og þá sérstaklega hjá eldri hópnum. Það væri mjög fróðlegt að sjá hvað kæmi út úr því,“ segir Hildur.
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á vefsíðu Læknablaðsins.