„Þessi ósk um afturvirka hækkun kjararáðs barst í ráðuneytið meðan ég var ráðherra. Ég man vel viðbrögð mín þegar ég var spurður álits á efni bréfsins. Ég fór að skellihlæja og hristi höfuðið. Það var ekki tilviljun að kjararáð fékk ekki afturvirka launahækkun meðan ég var ráðherra.“
Þetta segir Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, á Facebook síðu sinni, þar sem hann gerir beiðni kjararáðs um launahækkun, að umtalsefni.
Eins og greint var frá í ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans, þá sendi Jónas Þór Guðmundsson, formaður kjararáðs, bréf til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og falaðist eftir launahækkun fyrir ráðið. Bréfið var sent þann 14. september 2017, daginn áður en að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk.
Samkvæmt lögum er það ráðherra sem ákveður laun ráðsins hverju sinni.
Í bréfi Jónasar er farið fram á að laun þeirra sem sitja í ráðinu verði hækkuð um 7,3 prósent og að sú hækkun verði afturvirk til 1. ágúst sama ár. Þessi beiðni var rökstudd með því að laun kjararáðs hefðu ekki hækkað frá því sumarið 2016 og að mánaðarleg launavísitala Hagstofu Íslands hefði hækkað um áðurnefnda prósentutölu frá því að síðasta hækkun hafði átt sér stað.
Bréfinu var ekki svarað í rúman tvo og hálfan mánuð. Í millitíðinni fóru fram kosningar og 30. nóvember 2017 tók ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur við valdataumunum á Íslandi. Í fjármála- og efnahagsráðuneytið settist Bjarni Benediktsson. Sex dögum eftir að hann tók við embætti, þann 6. desember, barst Jónasi svarbréf frá ráðuneytinu. Í því var honum greint frá að fallist hafði verið á tillögu hans um launahækkun kjararáðs og að hún myndi gilda frá 1. ágúst 2017.