„Viðskiptaafgangur Íslands fer nú minnkandi. Á tímabilinu 2009-2016 var afgangurinn að meðaltali um 6% af landsframleiðslu en nýjustu tölur benda til þess að hann hafi verið um 3,7% í fyrra. Spár fyrir næstu ár nálgast 1,5-2%. Viðskiptahalli hefur reyndar mælst hér meira og minna allan lýðveldistímann, en tölur síðustu ára svipa einna mest til seinnistríðsáranna. Í ljósi umræðu síðastliðinna missera um mikilvægi þess að við höldum okkur áfram réttu megin við núllið í viðskiptum við útlönd er ágætt að velta því upp hvað slíkur afgangur hefur endurspeglað að undanförnu og hvort hann sé sjálfbær.“
Þetta er meðal þess sem er til umfjöllunar í ítarlegri grein Kristrúnar Frostadóttur, aðalhagfræðings Kviku, í Vísbendingu, sem kemur til áskrifenda í dag.
Í greininni fjallar Kristrún meðal annars um fjárfestingaþörfina í hagkerfinu, vegna uppbyggingar í ferðaþjónustu, og hvernig hún hefur áhrif á viðskiptajöfnuð þjóðarbússins.
„Gróflega metið spöruðum við um 1-1,5% af landsframleiðslu á ári af innflutningi fyrstu sjö árin eftir hrun með því að draga úr fjárfestingu. Til viðbótar mætti skjóta á að aukin fjárfestingarþörf vegna nýrrar atvinnugreinar krefjist um 0,5% af landsframleiðslu í innflutningi árlega á meðan á uppbyggingu stendur. Því liggur fyrir að viðskiptaafgangur síðastliðinna ára er ekki afgangur sem má vænta í jafnvægi.
Tveir kraftar koma því hér við sögu. Í fyrsta lagi var um kreppuáhrif að ræða, þar sem veikur gjaldmiðill ýtti undir útflutning og dró úr innflutningi, sem ganga að jafnaði til baka. Ef litið er til þróunar í kjölfar Asíu kreppunnar 1997 sést bersýnilega að hraður viðsnúningur í viðskiptajöfnuði gekk tilbaka, þó að halli hafi ekki myndast. Í öðru lagi þá erum við enn í miðri uppbyggingu á nýrri atvinnugrein og því ætti að fylgja aukin fjárfesting og innflutningur. Norðmenn voru með mikinn halla á viðskiptum við útlönd á meðan þeir byggðu upp sína útflutningsgrein, samhliða mikilli fjárfestingu. Þó að ferðaþjónusta sé ekki jafn fjármagnsfrek og olíuiðnaður þá er fjárfestingarþörfin engu að síður talsverð. Fjölgun gistirýma og bílaleigubíla, auk nauðsynlegs viðhalds vegakerfisins og margra ferðamannastaða kosta sitt,“ segir Kristrún meðal annars í grein sinni.