Tveir stjórnarþingmenn, Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir úr Vinstri grænum, kusu með vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra í liðinni viku. Það þýddi að einungis 33 af 35 þingmönnum flokkanna sem mynda ríkisstjórn studdu ráðherrann og í kjölfarið hefur því verið velt fyrir sér hvort að rétt sé að líta svo á að stjórnarmeirihlutinn hafi misst tvo þingmenn við þessa atkvæðagreiðslu.
Málið var til umræðu í síðasta sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut sem frumsýndur var á miðvikudag. Þar var vantrauststillagan aðalviðfangsefni þáttarins. Hægt er að horfa á hann í heilu lagi hér:
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var annar gesta þáttarins. Hann taldi það ekki alveg liggja fyrir hvort að stjórnarmeirihlutinn hefði minnkað. „Við eigum eftir að heyra í félögum okkar í VG um það, hvernig þeir líta á það. Þeir þekkja auðvitað betur til. Hvernig svo sem það er þá lít ég svo á að þessi ríkisstjórn hafi traustan meirihluta. Og heldur ótrauð áfram að vinna að þeim málum sem hún er að undirbúa og framkvæma.“
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist hafa séð það hjá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar og væntanlega næsta varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að hún líti svo á. „Ég veit ekki hvað ráðherrar VG eru að hugsa eða aðrir.“