Ríkisstjórnin ætlar að nota fjármagn frá bönkum sem íslenska ríkið á í til að byggja upp vegakerfið. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í ræðu sinni á flokksþingi flokksins í dag.
Sigurður Ingi sagði að fyrir kosningar hafi verið lögð áhersla á að nota fjármuni úr fjármálafyrirtækjunum til innviðauppbyggingar, það hafi verið skrifað í stjórnarsáttmálann og við það loforð verði staðið. Strax á þessu ári verði fjármagnaðar nýframkvæmdir í samgöngum og ráðist í stórsókn á brýnum framkvæmdum sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í áætlun fyrir árið 2018.
Vill sameina Fjármálaeftirlit og Seðlabanka
Sigurður Ingi sagði að á annað hundrað verkefni hefðu verið talin upp í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem Framsókn á aðild að. Að hans sögn er vinna við tæplega 90 prósent aðgerðanna í undirbúningi, hafin, komin langt á veg eða lokið.
Sigurður Ingi eyddi hluta ræðu sinnar í að tala um fjármálakerfið og sagði að Hvítbókarvinnan sem standi yfir muni svara þeim spurningum sem spurðar hafa verið um framtíð þess, t.d. um aðskilnað fjárfestinga og viðskipta, eignarhald og stærð bankakerfisins. „Brýnt er að gera sér grein fyrir hvernig við viljum sjá þessa þætti fyrir okkur – við höfum löngum haft þá stefnu að fjármálafyrirtækin eigi að vera þjónandi fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu með traustum, trúverðugum og ódýrum hætti.“
Hann sagði enn fremur að við endurskoðun fjármálakerfisins sé það mat Framsóknarmanna að skynsamlegt sé að efla eftirlit með kerfinu, m.a. með sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Bankakerfið sé of stórt á Íslandi fyrir hagkerfi að þessari stærð og eigið fé bankanna sé of hátt.
„Við erum komin aftur“
Sigurður Ingi fjallaði einnig um ríkisstjórnarsamstarfið í ræðu sinni. Hann sagði að skoðanakannanir í nóvember 2017 hefðu sýnt að 73 prósent þjóðarinnar hafi viljað Framsókn í ríkisstjórn, þangað sem flokkurinn fór ásamt Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki. Sigurður Ingi sagði þetta sýna að landsmenn hefðu helst viljað fá Framsóknarflokkinn til að stýra landinu og að það sé „ heilbrigðisvottorð um heiðarlegan flokk, skynsama stefnu og öflugt fólk.“ Það þyrfti þó að muna að traust væri ekki gefið. „Það skiptir öllu hvernig við umgöngumst valdið, hvernig við vinnum saman og leiðum málin til lykta. Þetta kunnum við Framsóknarmenn, þarna liggja rætur okkar, við erum komin aftur.“
Sigurður Ingi sagði að það væri honum stórlega til efs að hinn almenni kjósandi væri að biðja um uppþot á Alþingi. Kjósendur hefðu beðið um pólitískan stöðugleika í síðustu kosningum og frið til að byggja upp samfélagið. Að því vinni meirihlutinn. „Það er lítil eftirspurn eftir popúliskum tilburðum að fyrirmynd Trumpara austan eða vestan Atlantsála. Og engin eftirspurn eftir illindum vinstri stjórnarinnar frá 2009-2013.“