Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að svigrúm sitjandi ríkisstjórnar byggi á pólitískri innistæðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Það sé dapurlegt að sjá þá innistæðu notaða til að viðhalda rótgróinni sérhagsmunagæslu sem fylgt hefur hinum stjórnarflokkunum tveimur. Engin viðleitni sé sýnd til að breyta þessu og nýleg dæmi sanni það. Þetta er meðal þess sem kom fram í stefnuræðu Þorgerðar á landsþingi Viðreisnar í dag.
Þorgerður fór um víðan völl í ræðu sinni. Hún fjallaði meðal annars um jafnrétti og aukna misskiptingu. Þá stöðu setti hún í samhengi við gjaldmiðlamál og sagði að í íslensku velferðarsamfélagi eigi fátækt einfaldlega ekki að líðast. „Við eigum ekki að þola hana hjá ungu fólki og börnum. Við eigum ekki heldur að sætta okkur við fátækt aldraðra. Þar eigum við skuld að gjalda. Við þurfum að skipta jafnar. Forsenda þess er að hafa kjark til að stokka upp í kerfunum.[...]Það er misrétti en ekki jafnrétti þegar efnahagur foreldra hefur úrslitaáhrif á menntun barna. Það er misrétti en ekki jafnrétti í lífskjörum nágrannaþjóða þegar efnahagssveiflur og okurvextir örmyntar hneppa fjölskyldur hjá einni þjóð í fátæktargildru á meðan fólk býr við traustan efnahag og stöðugleika handan landamæra. Það er misrétti en ekki jafnrétti þegar sérhagsmunir fárra eru tryggðir með hagsmunagæslu sem á hverjum degi gengur gegn almannahag og byggist á daglegum fórnum fólksins í landinu. Og við erum óþreytandi að spyrja af hverju stórfyrirtæki í landinu geti valið um í hvaða mynt þau gera upp meðan heimilin í landinu er múlbundin íslensku krónunni með ofurvextina.“
Erfiðara að líta á Bandaríkin sem forysturíki
Þorgerður velti því fyrir sér hvað valdi því að flokkur eins og Viðreisn, sem hún lýsti sem ungum flokki sem skuldi engum hagsmunaöflum nokkurn skapaðan hlut, frjálslyndum velferðarflokki, alþjóðasinnuðum jafnréttisflokki sem styðji við heilbrigt umhverfi fyrirtækja og segir úreltum viðhorfum stríð á hendur, fari ekki með himinskautum frá fyrsta degi.
Að hennar mati eru fyrir því tvíþættar ástæður. „Annars vegar það sem margir telja einn hættulegasta lífsstílssjúkdóm hins vestræna heims - meðvirkni. Hins vegar það sem er svo ríkt og skiljanlegt í mannlegu eðli - ótti við breytingar. Þú veist hvað þú hefur en ekki endilega hvað þú færð.“
Hún gagnrýndi þá sem segja að Viðreisn sé einsmálsflokkur vegna áherslu hans á aðild að Evrópusambandsaðild. „Nú á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld líta þeir sem þannig tala svolítið út eins og álfar úr hól grárrar forneskju. Eða við gætum sagt að þeir minni helst á staka steina út í einhverjum Hádegismóanum. Staðreynd er að slík viðhorf lýsa tímaskekkju. Það er einfaldlega ekki hægt að taka alhliða afstöðu til viðfangsefna samtímans nema hafa skýra sýn á það hvernig við skipum málum okkar sem best í samskiptum og samvinnu við aðrar þjóðir. Að sleppa tækifærum á þeim vettvangi er það sama og sleppa tækifærum fyrir Ísland. Þeir sem halda að þau mál hafi verið afgreidd í eitt skipti fyrir öll fyrir áratugum skilja einfaldlega ekki breytingar samtímans.“
Æ erfiðara væri að líta á Bandaríkin sem forysturíki í heiminum þar sem þau væru markvisst að hverfa frá því skipulagi frjálsra heimsviðskipta sem þau sjálf komu á. Hugtök eins og skyldur við bandamenn í lýðræðisríkjum og frjáls viðskipti heyrist sjaldnar úr þeirri átt, en þess í stað sé meira talað um einangrun, veggi, girðingar og tollmúra. „Popúlismi af svipuðum toga hefur líka skotið rótum víða í Evrópu á jöðrunum yst til vinstri og hægri, Eftir Brexit áttu margir von á því að popúlisminn væri að taka yfir í álfunni. Sú hefur ekki orðið raunin enn. En popúlisminn er eigi að síður veruleiki bæði austan hafs og vestan sem ekki verður litið framhjá.“
Vill þverpólitíska nefnd um ný skref í Evrópusamvinnu
Þorgerður sagði að það þyrfti ekki djúpa skoðun til þess að sjá að hagsmunum Íslands væri betur borgið með því að fylgja öðrum Norðurlöndum í samstarfi innan Evrópusambandsins fremur en að elta Breta í þeirra vegferð. „Ríkisstjórn Íslands er ein ríkisstjórna á Norðurlöndum sem ekki hefur gefið skýra og ótvíræða yfirlýsingu um það val. Að sönnu hefur hún ekki sagt berum orðum að hún ætli að fylgja Bretum en í umræðunni endurvarpar hún í síbylju frösum þeirra sem standa lengst til hægri í breska Íhaldsflokknum og breska Sjálfstæðisflokknum. Líkt og utanríkisstefna okkar sé orðin að deild innan UKIP, breska sjálfstæðisflokksins.“
Í ræðu sinni lagði Þorgerður til að sammælst yrði um að Viðreisn myndi beita sér fyrir því á Alþingi að forsætisráðherra myndi skipa þverpólitíska nefnd til þess að leggja mat á nýjar og breyttar aðstæður í alþjóðamálum, nýjar áskoranir fyrir Ísland og nýja möguleika til þess að bæta hag fólksins í landinu með því að taka nýtt skref í Evrópusamvinnunni. „Ef ríkisstjórnin leggst gegn þessari hugmynd er hún hvort tveggja staðnaðri og forstokkaðri en ég hef nokkurn tímann ímyndað mér. Þó að stjórnarflokkarnir hafi samið um hagsmuni kyrrstöðunnar er ég sannfærð um að hún er ekki svo heillum horfin að bregða fæti fyrir að þessi stóru álitamál verði sett i málefnalegan farveg af þessu tagi. Ég er því vongóð um að þetta skref megi stíga fljótlega.“
Endurspeglar gömlu blokkirnar í Sjálfstæðisflokknum
Hún gagnrýndi síðan ríkisstjórnina fyrir áherslur hennar og sagði að allir viti „að svigrúm ríkisstjórnarinnar byggir á pólitískri innistæðu forsætisráðherrans sem Katrín á með réttu. Þess vegna er það heldur dapurlegt að sjá þá innistæðu notaða til að viðhalda rótgróinni sérhagsmunagæslu sem fylgt hefur hinum stjórnarflokkunum og engin viðleitni er sýnd til að breyta. Það hafa nýleg dæmi nú þegar sýnt.“
Þorgerður kom líka inn á sveitarstjórnarmál, en kosningar á þeim vettvangi eru fram undan í vor. Hún sagði að Viðreisn muni fara fram í Reykjavík fyrir eigin vélarafli. Tvennt megi ekki gerast í komandi kosningum: Annars vegar að núverandi meirihluti Dags B. Eggertssonar haldist óbreyttur velli vegna þess að þörfin fyrir nýjar raddir, ferska vinda, viðsnúning í leikskóla- og menntunarmálum og margt fleira sé gífurleg. Hitt sem ekki megi gerast er að „Sjálfstæðisflokkurinn með allt sitt íhald komist til valda á grunni orðræðu oddvitans sem endurspeglar gömlu valdablokkirnar í Sjálfstæðisflokknum. Og alltaf þegar vonir eru bundnar við að gamalkunnar 1 risaeðlur séu að slaka á klónni, birtast þær skyndilega eins og grameðlurnar í Júragarðinum.“