Þorgerður Katrin Gunnarsdottir, sem var kjörinn formaður Viðreisnar i dag með rúmlega 95 prósent atkvæða, skaut föstum skotum á Morgunblaðið og stærstu eigendur þess í stefnuræðu sinni sem flutt var á laugardag. Þorgerður Katrín hefur ítrekað verið gagnrýnd mjög harðlega í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins, en hún er fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og starfaði innan hans árum saman áður en hún ákvað að fara í framboð fyrir Viðreisn.
Í þeim hluta sem fjallaði um utanríkismál sagði hún þá sem gagnrýni flokka á borð við Viðreisn fyrir að gera mikið úr utanríkismálum í stefnu sinni, og kalla þá einsmálsflokka fyrir stuðning sinn við aðild að Evrópusambandinu, séu eins og álfar úr hól grárrar forneskju. Síðan sagði hún að það væri líka hægt að segja að þeir „minni helst á staka steina út í einhverjum hádegismóanum“. Með þessu orðalagi vísaði Þorgerður í nafnlausan dálk í Morgunblaðinu þar sem oft á tíðum er ráðist af mikilli heift á nafngreinda einstaklinga, og kallast Staksteinar. Sá er skrifaður á ábyrgð ritstjóra Morgunblaðsins, sem hafa fagnað mjög útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, oftast nefnt Brexit, í sínum skrifum á undanförnum árum og eru eindregnir andstæðingar sambandsins. Auk þess eru höfuðstöðvar Morgunblaðsins við götu sem heitir Hádegismóar.
Eigendur Morgunblaðsins fengu líka sinn skerf, en umsvifamestir í þeim hópi hafa verið fyrirtæki í eigu Guðbjargar Matthíasdóttir, aðaleiganda útgerðarrisans Ísfélags Vestmannaeyja. Fyrirtækjasamsteypa Guðbjargar, sem er stýrt af Einari Sigurðssyni syni hennar, hefur haslað sér völl mun víðar en einungis í sjávarútvegi. Þannig keypti fjölskyldan ÍSAM ehf. (Íslensk-Ameríska), eitt stærsta innflutnings- og framleiðslufyrirtæki landsins árið 2014. Tveimur árum síðar keypti ÍSAM síðan Korputorg, stærsta atvinnuhúsnæði landsins, með það fyrir augum að koma allri starfsemi fyrirtækisins fyrir þar auk þess sem hægt yrði að þróa annars konar starfsemi þar sem risavaxið bílastæði er í dag. Nýverið var til að mynda kynnt að til stæði að byggja þar gagnaver.
Í ræðu sinni um helgina fjallaði Þorgerður Katrín meðal annars um auðlindagjöld á sjávarútveg og sagði að hægt væri að horfa til Vestmannaeyja til að sjá hvernig auðurinn af auðlindinni skiptist. „Hluti af verðmætasköpun sjávarútvegsins þar hefur safnast saman í margvíslegum og mismunandi rekstri á Korputorgi í Reykjavík. Í sjálfu sér teljum við það bæði gott og heilbrigt. En í okkar tillögum felst að stórum hluta af auðlindagjaldinu verði varið til innviðafjárfestingar á landsbyggðinni. Ef fjórðungnum af Korputorgsfjárfestingunni hefði í gegnum auðlindagjöld verið varið til innviðafjárfestinga í heilbrigðisþjónustu og samgöngum fyrir Vestmanneyinga væri það samfélag betur sett eftir breytingar en fyrir. Annars staðar gæti slík innviðastyrking í gegnum auðlindagjaldið stuðlað að fjárfestingu í nýjum atvinnutækifærum.“
Þriðja atriðið í ræðu hennar sem heimfæra má upp á stjórnendur og eigendur Morgunblaðsins kom fram undir lok hennar, þegar Þorgerður Katrín var að fjalla um sveitarstjórnarmál. Líkt og þekkt er verður Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum, en hann keypti stóran hlut í Morgunblaðinu í fyrra. Þorgerður Katrín sagði í ræðu sinni að það mætti ekki gerast að „Sjálfstæðisflokkurinn með allt sitt íhald komist til valda á grunni orðræðu oddvitans sem endurspeglar gömlu valdablokkirnar í Sjálfstæðisflokknum. Og alltaf þegar vonir eru bundnar við að gamalkunnar risaeðlur séu að slaka á klónni, birtast þær skyndilega eins og grameðlurnar í Júragarðinum.“ Þær gömlu valdablokkir sem hún vísar til eru þeir hópar innan Sjálfstæðisflokksins sem fylgja Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni flokksins og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, að málum.