Ályktun var lögð fyrir þing Framsóknarflokksins í gær 11. febrúar að skipuð yrði rannsóknarnefnd um þær aðgerðir sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki réðust í eftir hrunið.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og þriðji maður á lista Framsóknar í Reykjavík fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, greindi frá þessu í Facebook-færslu í gær.
Samkvæmt færslunni var ályktunin samþykkt með nær öllum greiddum atkvæðum. Ásthildur segir þetta vera sigur fyrir Hagsmunasamtök heimilanna vegna þess að þau hafi reynt að ná athygli stjórnmálaflokka um þetta mál með litlum árangri fram til þessa.
„Rannsaka þarf aðgerðir stjórnvalda og fjármálafyrirtækja í kjölfar hrunsins og finna út raunverulega stöðu fjármálakerfisins en það verður ekki gert án þess að rannsaka lögmæti þeirra aðgerða sem ráðist var í eftir hrunið, t.d. varðandi endurútreikninga gengistryggðra lána. Einnig þarf að skoða hvort úrvinnsla verðtryggðra og gengistryggðra lána hafi verið í samræmi við lög- og stjórnarskrárvarin réttindi neytenda og skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.
Stöðva skal allar aðfarir sem byggja á fyrrnefndum aðgerðum á meðan gerð slíkrar rannsóknarskýrslu stendur yfir,“ segir í færslu Ásthildar.
Von hennar er sú að þeir félagar Hagsmunasamtaka heimilanna sem eru í stjórnmálaflokkum vinni þessari tillögu fylgi innan sinna flokka og/eða skori á þá að veita henni stuðning þegar hún kemur fyrir þingið.
Ég bar upp ályktun á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag um að skipuð verði rannsóknarnefnd um þær aðgerðir sem...
Posted by Ásta Lóa Þórsdóttir on Sunday, March 11, 2018