Björt framtíð mun ekki bjóða fram lista í komandi borgarstjórnarkosningum. Þetta staðfestir Björt Ólafsdóttir, formaður flokksins, í samtali við Fréttablaðið í dag.
Eins og greint hefur verið frá hafa þreifingar verið milli Bjartrar framtíðar og Viðreisnar um samstarf í sveitarstjórnarkosningum, bæði í borginni og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Nú liggur fyrir að ekki verður af slíku samstarfi í Reykjavík og Björt framtíð mun heldur ekki bjóða fram sér í borginni.
Flokkurinn þurrkaðist næstum alveg af hinu pólitíska sviði í Alþingiskosningunum í fyrra, en hann fékk þá 1,2 prósent fylgi.
Kjörnir fulltrúar flokksins í Reykjavík ætla ekki að gefa kost á sér aftur en Björt framtíð á tvo borgarfulltrúa, þau Sigurð Björn Blöndal og Elsu Hrafnhildi Yeoman og hafa þau starfað með meirihlutanum í Reykjavík á því kjörtímabili sem er að ljúka. „Þetta var samt hvorki auðveld né léttvæg ákvörðun, enda erum við ofboðslega stolt af þeim áþreifanlegu breytingum sem hafa orðið á pólitíkinni í Reykjavíkurborg. Besti flokkurinn kom og breytti þar algjörlega um kúrs og bauð ekki bara upp á mannlega pólitík heldur líka stöðugleika í stjórnun borgarinnar í stað þess róts sem fyrr var við tíð borgarstjóraskipti hjá Sjálfstæðisflokknum,“ segir Björt í viðtali við Fréttablaðið.