Þátttaka í bólusetningum barna hér á landi við 12 mánaða, 18 mánaða og 4 ára aldur er undir viðmiðunarmörkum, það er að segja undir 95 prósentum. Þetta kemur fram í minnisblaði sem heilbrigðisráðherra lagði fyrir ríkisstjórnina á föstudag.
Á öðrum aldursskeiðum er hún viðunandi. Börn á Íslandi eru bólusett á fyrsta ári, við 3, 5, 6, 8 og 12 mánaða aldur. Á öðru ári eru þau bólusett við 18 mánaða aldur og síðan 4 ára, 12 ára og 14 ára.
Fyrirkomulag bólusetninga hér á landi svipar mjög til fyrirkomulagsins á hinum Norðurlöndunum. Þeim er ætlað að verja börn gegn alvarlegum smitsjúkdómum og er börnum með lögheimili hér á landi boðin bólusetning, þeim að kostnaðarlausu, gegn barnaveiki, hettusótt, H influenzae sjúkdómi, kíghósta, mænusótt, mislingum, rauðum hundum og stífkrampa. Vegna almennrar þátttöku landsmanna í bólusetningum hefur sóttvarnalæknir ekki talið þörf á að gera bólusetningar að lögbundinni skyldu.
Sóttvarnarlæknir hefur leitað skýringa á því að þátttaka á þessum aldursskeiðum sé undir væntingum og brugðist við því með því að kanna ýmsa þætti. Þannig telur hann ekki að skýringuna megi finna í andstöðu almennings til bólusetninga. Rannsóknir sýni að yfir 95 prósent þátttakenda séu frekar eða mjög hlynnt bólusetningum en einungis 1-2 prósent mótfallin. Sóttvarnarlæknir telur því óráðlegt að gera bólusetningu að lögbundinni skyldu.
Þá segir sóttvarnarlæknir að borið hafi á því að bólusetningar séu vanskráðar í rafrænt kerfi heilsugæslunnar og upplýsingar berist því ekki í bólusetningargrunn sóttvarnalæknis. Við þessu hefur verið brugðist og hefur sóttvarnalæknir reglulega ítrekað við heilbrigðisstarfsmenn að skrá allar bólusetningarrafrænt. Þá er í undirbúningi að bæta notendaviðmót sjúkraskrárkerfisins hvað varðar skráningu bólusetninga.
Sóttvarnarlæknir segir ennfremur að út frá fyrirliggjandi upplýsingum um óviðunandi þátttöku í bólusetningum við 12 mánaða, 18 mánaða og 4 ára aldur virðist ljóst að innköllunarkerfi heilsugæslunnar hvað bólusetningar varðar sé ófullnægjandi. Unnið sé að því að koma á viðvörunarkerfi í sjúkraskrárkerfum heilbrigðisstofnana þannig að hægt verði að hafa upp á óbólusettum börnum og bjóða þeim bólusetningar.
Þá hefur komið fram í rannsóknum að fræðsla til foreldra um bólusetningar sé ekki næg. Óskað hefur verið eftir því að slík fræðsla verði skipulögð í mæðra- og ungbarnavernd heilsugæslunnar. Að auki vinnur velferðarráðuneytið nú að nýju
Telur sóttvarnarlæknir margt benda til að þátttaka barna í almennum bólusetningum hér á landi sé betri en opinberar tölur segja til um. Í minnisblaðinu segir að sóttvarnalæknir telji að ekki sé ástæða til að ætla að þátttaka hér sé svo slæm að óttast megi að hér breiðist út hættulegir smitsjúkdómar. Mikilvægt er að gæta þess að sofna ekki á verðinum og bregðast við með viðeigandi hætti ef þátttaka í bólusetningum barna verður óásættanleg.