Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur samþykkt að funda með Kim Jong Ung, leiðtoga, Norður-Kóreu, en ekkert hefur þó heyrst frá honum eða öðrum úr stjórnarliði Norður-Kóreu frá því að bandarísk stjórnvöld tóku þessa sögulegu ákvörðun.
Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
Það eru stjórnvöld í Suður-Kóreu sem hafa verið að miðla málum, með það að markmiði að draga úr spennu á Kóreuskaga.
Ef fundurinn fer fram, þá verður hann sá fyrsti sem forseti Bandaríkjanna á með leiðtoga Norður-Kóreu.
In the first hours after hearing that North Korea’s leader wanted to meet with me to talk denuclearization and that missile launches will end, the press was startled & amazed.They couldn’t believe it. But by the following morning the news became FAKE.They said so what, who cares!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 10, 2018
Trump og Kim Jong Un hafa skipst á skeytasendingum í gengum fjölmiðla allt frá því Trump tók við sem forseti í byrjun síðasta árs.
Tilraunum Norður-Kóreu með langdrægar flaugar hefur verið harðlega mótmælt og hafa Sameinuðu þjóðirnar samþykkt einróma efnahagsþvinganir gagnvart landinu. Sumar þeirra eru verulega íþyngjandi, meðal annars bann við flutningi á olíu til landsins.
Búist er við því að aðalumræðuefni fundar Trumps og Kim Jong Un, ef til hans kemur, verði um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu.