Gylfi Arnbjörnsson hringdi í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, nýjan formann Eflingar, og óskaði henni til hamingju með glæsilegan sigur í formannskosningu á dögunum. Hún fékk um 80 prósent atkvæða.
Hann segist ekki vera búinn að ákveða hvort hann gefi kost á sér til að leiða ASÍ áfram sem forseti.
Í viðtali við Morgunblaðið í dag, segir Gylfi að það sé hans mat, að verkalýðshreyfingin verði að bíta frá sér. Þá hafi miklar launahækkanir ráðamanna þjóðarinnar og stjórnenda hjá ríkinu sem heyra undir kjararáð hleypt illu blóði í hreyfinguna. „Það getur ekki hafa farið framhjá neinum sem hefur fjallað um þessi mál að ég hef talið hreyfinguna þurfa að bíta frá sér,“ segir Gylfi í viðtali við Morgunblaðið.
Fingraför ráðherra blasi við m.a. við breytingar á kjörum kjararáðs. Þá hafi ákvarðanir um kjör forstöðumanna fyrirtækja í eigu ríkisins eftir að þær voru teknar frá kjararáði, átt að stuðla að meiri aga og ábyrgð á launahækkunum forstjóranna en niðurstaðan blasi hins vegar við. „Það hefur verið mitt mat nokkuð lengi að hreyfingin þurfi að bíta frá sér. Ég var þeirrar skoðunar 2014 og 2015 og það var mín tillaga (um seinustu mánaðamót) að segja upp þessum kjarasamningum, þannig að sú harka sem þau eru að endurspegla held ég að sé ekkert alveg einskorðuð við þau,“ segir Gylfi.