Skýr aðskilnaður á að vera milli eignastýringar Arion banka og Stefnis, dóttufélags bankans. Þar til nýlega var þó í gildi samningur milli eignastýringar Arion banka og Stefnis sem vekur spurningar um aðskilnaðinn og hvort „Kínamúrinn“ sem á að vera á milli eignastýringarinnar og Stefni, hafi verið fyrir hendi. Samningurinn, sem unnið var eftir frá 2008-2016, fól í sér að Stefnir greiddi eignastýringu bankans þóknanir fyrir fjárfestingar sem eignastýringin hafði milligöngu um í sjóðum Stefnis.
Frá þessu var greint í fréttaskýringarþættinum Kveiki á RÚV í kvöld, en þar var til umfjöllunar fjármögnun á verkefnum United Silicon í Helguvík. Þar er Arion banki orðinn eigandi að eignum þrotabússins, og vinnur að því að koma þeim í verð. Kom fram í þættinum að Fjármálaeftirlitið hefði fjárfestingar lífeyrissjóða í verkefninu til skoðunar.
Þrír lífeyrissjóðir töpuðu samtals 2 milljörðum króna á fjárfestingu sinni. Frjálsi lífeyrissjóðurinn mestu, næstum 1,3 milljörðum, en Festa lífeyrissjóður á Suðurnesjum og eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna töpuðu einnig á fjárfestingu sinni.
Hann, líkt og Frjálsi eru í raun reknir af Arion banka, sem hafði mestra hagsmuna að gæta í verkefni United Silicon. Aðrir lífeyrissjóðir landsmanna fengu kynningu á verkefninu á sínum tíma, en töldu það ekki vænlega fjárfestingu, að því er fram kom í þættinum.
„Samband Arion banka og Frjálsa lífeyrissjóðsins er sérstakt. Frjálsi er til húsa hér í húsnæði bankans en Arion fær um 600 milljónir króna á ári fyrir að reka sjóðinn. Fjárfestingar Frjálsa eru svo í höndum eignastýringar bankans, hér handan götunnar. Þar starfar raunar framkvæmdastjóri Frjálsa. Lífeyrissjóðir verða samkvæmt lögum að tilnefna starfsmann til að fylgjast með áhættu fjárfestinga. Í tilfelli Frjálsa er enginn starfsmaður og því fer Arion banki líka með áhættumat sjóðsins auk þess sem sama fyrirtæki endurskoðar allt saman. Fjárfesting í United Silicon er þó ekki eina málið sem vekur spurningar um þetta fyrirkomulag. Eins og hjá öðrum lífeyrissjóðum í umsjón Arion banka eru fjárfestingar Frjálsa að miklu leyti við bankann sjálfan. Mest í gegnum dótturfélag Arion, sjóðsstýringafyrirtækið Stefni, dótturfélag bankans. Eða allt að 11% heildarfjárfestinga sjóðsins. Allar fara þær fram í gegnum eignastýringu bankans. Skýr aðskilnaður á að vera milli eignastýringarinnar og Stefnis - svokallaður kínamúr. Enda er það hlutverk eignastýringarinnar að gæta að hagsmunum viðskiptavina í fjárfestingum en ekki bankans. Þar til nýlega var þó í gildi samningur milli eignastýringar Arion banka og Stefnis sem vekur spurningar um þéttleika þessa kínamúrs. Samningurinn, sem unnið var eftir frá 2008-2016, fól í sér að Stefnir greiddi eignastýringu bankans þóknanir fyrir fjárfestingar sem eignastýringin hafði milligöngu um í sjóðum Stefnis. Eignastýring bankans hafði því hreinan hvata af að beina viðskiptum - eins og tug milljarða viðskiptum lífeyrissjóða til Stefnis - en ekki annað. Og þrátt fyrir tilmæli og reglur um gagnsæi og upplýsingaskyldu þótti aldrei ástæða til að láta viðskiptavini eignastýringar vita af samningnum eða hvað í honum fólst. Stjórn Frjálsa kvaðst reyndar í svari til Kveiks ekki telja sig hafa þurft að vita af því sérstaklega,“ segir í frétt RÚV, þar sem fjallað er um umfjöllun Kveiks.
Óhætt er að segja að saga United Silicon sé þyrnum stráð, en nú eru til meðferðar mál sem beinast að fyrrum forstjóra, Magnúsi Garðarssyni. Er hann grunaður um lögbrot. Arion banki hefur nú þegar afskrifað um 5 milljarða vegna verkefnisins, og vinnur, eins og áður segir, að því að koma verðmætum í verð með sölu til nýrra fjárfesta.