Í nágrannalöndunum eru starfsræktar sérstakar vefsíður þar sem hægt er að nálgast grunnupplýsingar um fyrirtæki á borð við eigendur, stjórnendur og lykiltölur úr rekstri fyrirtækjanna.
Vefsíðan Allabogal í Svíþjóð þjónar til að mynda þessum tilgangi, en þar er að finna helstu upplýsingar um fyrirtæki þar í landi. Hægt er að nálgast grunnupplýsingar án kosnaðar en ef þörf er á þá er hægt að greiða fyrir frekari upplýsingar. Samkvæmt síðunni er hún uppfærð daglega með upplýsingum frá yfirvöldum þar í landi.
Sambærilegar síður eru í Danmörku og Noregi, þar sem hægt er að fletta upp grunnupplýsingum um dönsk og norsk fyrirtæki.
Á Íslandi er stærsta fyrirtækið á þessum markaði Creditinfo. Eins og Kjarninn fjallaði um í fréttaskýringu þann 8. mars síðastliðinn þá telur Ríkisskattstjóri að lagabreyting sem myndi veitir almenningi gjaldfrjálsan aðgang að gögnum fyrirtækjaskrár kippi fótunum undan rekstri hennar. Creditinfo finnst óþarfi að hætta rukkun fyrir gögnin.
Með frumvarpinu er lagt til að upplýsingar ársreikningaskrár og hluthafaskrár verði aðgengilegri fyrir almenning. Lagt er til að ekki skuli taka gjald fyrir rafræna uppflettingu í skrám þessum og að sömu upplýsingar skuli vera aðgengilegar þar og ef greitt væri fyrir eintak af gögnum úr skránni. Þessar upplýsingar geta ekki talist aðgengilegar almenningi miðað við núverandi löggjöf þar sem greiða þarf fyrir þær.
Tekjur Ríkisskattstjóra af hlutafélagaskrá og ársreikningaskrá voru 133,7 milljónir króna í fyrra. Verði frumvarp Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um að upplýsingar úr hlutafélagaskrá og ársreikningaskrá verði aðgengilegar almenningi án þess að gjald verði tekið fyrir muni því tekjur stofnunarinnar skerðast „verulega“. Þetta kemur fram í umsögn sem embætti ríkisskattstjóra hefur skilað inn vegna frumvarpsins.
Þar segir enn fremur að gera megi ráð fyrir því að margir þeirra aðila sem fram til þessa hafi greitt fyrir upplýsingar úr skránum mun sækja þær upplýsingar gjaldfrjálst verði frumvarpið að lögum. „Samkvæmt framangreindu er því ljóst að fótunum er verulega kippt undan fjármögnun á rekstri fyrirtækjaskrár verði innheimta þjónustugjalda að öllu leyti felld niður. Mun ríkisskattstjóri því verða af miklum rekstrartekjum sem bæta þarf embættinu með aukningu á beinu rekstrarframlagi. Þeirri breytingu á rekstrargrundvelli fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, sem fyrirhuguð er, má líkja við það að ákveðinn yrði ókeypis aðgangur að söfnum landsins.“
Ríkisskattstjóri segir að ef fyrirhugaðar lagabreytingar fram að ganga þá væri æskilegt að veitt yrði heimild til að setja reglugerð um afmörkun þeirra upplýsinga sem veita ætti gjaldfrjálst aðgengi að og framkvæmd hins rafræna aðgengis. „Hvort heldur átt er við einstakar uppflettingar almennings eða aðgang fyrirtækja að gagnagrunnum eða afritun einstakra skráa vegna úrvinnslu upplýsinga.“
Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að 106 milljónir króna af þeim 133,7 milljónum króna sem stofnunin hafði í tekjur af því að selja upplýsingar úr hlutafélaga- og ársreikningaskrá hafi komið frá miðlurum, þ.e. fyrirtækjum sem kaupa upplýsingarnar og endurselja þær til viðskiptavina.