Íslandsbanki tilnefnir Elínu Jónsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra VÍB, eignastýringarþjónustu bankans, og Ara Daníelsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Glitnis í Lúxemborg, sem nýja stjórnarmenn í greiðslukortafyrirtækinu Borgun.
Frá þessu er greint í Markaðnum í dag, en Íslandsbanki, sem ríkið á 100 prósent, er stærsti eigandi fyrirtækisins með 63,5 prósent hlut.
Þau munu koma inn í stað Erlends Magnússonar, sem hefur verið formaður stjórnar Borgunar frá árinu 2015, og síðan Sigrúnar Helgu Jóhannsdóttur lögmanns.
Ýmislegt hefur gengið á hjá Borgun undanfarin misseri, og má nefna sekt sem FME lagði á fyrirtækið á haustmánuðum í fyrra. Þá var Borgun sektað um 11,5 milljónir króna fyrir að hafa brotið lög um kaupauka.
Málsatvik voru þau að hinn 13. september 2016 ákvað stjórn Borgunar að greiða starfsmönnum fyrirtækisins 900 þúsund krónur, hefðu þeir verið í fullu starfi undanfarna 12 mánuði eða hlutfall af þeirri fjárhæð vegna minna starfshlutfalls. Alls fengu 148 starfsmenn slíka greiðslu. Þetta var ekki í samræmi við lög, og var fyrirtækið sektað þess vegna.