Íslensk ferðaþjónusta er orðin umtalsvert dýrari en hún var, og samkeppnishæfni hennar hefur hrakað. Ferðaþjónustan er hins vegar drifkrafturinn í hagkerfinu og stóð að baki 43 prósent heildarútflutnings í fyrra.
Þetta er meðal þess sem má lesa um í ítarlegri grein eftir Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka, sem birtist í Vísbendingu sem kemur til áskrifenda á morgun.
Í greininni fjallar hann um hvernig þróun raungengis hefur verið, og hvort sú þróun geti haft áhrif á það hvort ferðamenn heimsæki Ísland eða ekki. „Alþjóðlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að breytingar á raungengi milli heimalands og áfangastaðar hafa umtalsverð áhrif á eftirspurn ferðamanna milli viðkomandi landa,“ segir í grein Jóns Bjarka, og vitnar hann þar til rannsóknar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Í grein hans segir meðal annars:
„Undanfarinn áratug hefur samsetning útflutningstekna þjóðarbúsins tekið stakkaskiptum. Ferðaþjónusta, sem aflaði um það bil fimmtungs útflutningstekna í upphafi áratugarins, stóð á bak við 43% heildarútflutningstekna Íslands á síðasta ári samkvæmt áætlun Greiningar Íslandsbanka. Þetta hlutfall var á sama tíma 17% fyrir sjávarútveg og 14% fyrir álútflutning. Að viðbættum öðrum þjónustuútflutningi áætlar Greining að heildarútflutningur þjónustu hafi numið 56% af öllum útflutningi þjóðarbúsins árið 2017. Horfur eru á að þetta hlutfall hækki enn frekar á næstunni. Þjónustuútflutningur mun því væntanlega skila bróðurparti útflutningstekna landsins á komandi árum og áratugum.
Stórauknar gjaldeyristekjur vegna þessa hraða vaxtar ferðaþjónustunnar áttu verulegan þátt í hækkun raungengis krónu árin 2015-2016. Raungengi krónu hefur hækkað um 26% frá árinu 2015, sé miðað við hlutfallslegt verðlag. Hefur raungengið sjaldan verið hærra á þann kvarða. Á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar nemur hækkun raungengisins hins vegar 35% á þessu tímabili. Sá mælikvarði endurspeglar samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar, enda um mjög mannaflsfreka atvinnugrein að ræða. Íslensk ferðaþjónusta er því bæði orðin umtalsvert dýrari í þeim skilningi að erlendur ferðamaður fær talsvert minna fyrir hverja evru, dollar eða pund í Íslandsferð sinni en áður, og að sama skapi er kostnaður við þá þjónustu og vörur sem þessum sama ferðamanni standa til boða orðinn til muna meiri en var fyrir fáeinum árum.
Raungengið hefur áhrif
Mikil óvissa hefur ríkt um hvernig samspil raungengisins og eftirspurnar í ferðaþjónustu myndi þróast, enda hefur uppgangur greinarinnar verið afar hraður og gengisbreytingar á sama tíma miklar. Alþjóðlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að breytingar á raungengi milli heimalands og áfangastaðar hafa umtalsverð áhrif á eftirspurn ferðamanna milli viðkomandi landa. Má þar nefna rannsókn sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2014, þar sem niðurstaðan var sú að teygni eftirspurnar í ferðamennsku milli OECD-landa gagnvart raungengisbreytingum væri u.þ.b. 0,2. Það felur í sér að 10% lækkun raungengis tiltekins áfangastaðar gagnvart heimalandsmynt samsvarar að jafnaði 2% fjölgun ferðamanna frá viðkomandi heimalandi til þess áfangastaðar. Auk þess hafði raungengið einnig áhrif á dvalarlengd samkvæmt sömu rannsókn, sem jók verulega heildaráhrif raungengisbreytinganna mælt í gistinóttum. Rannsóknin leiddi þó einnig í ljós að þessi raungengisáhrif voru minni þegar um lítil eyríki var að ræða og tengdust þá fremur raungengisbreytingum í heimalandi ferðamanna en gengisbreytingum á áfangastað.“
Hér er hægt að gerast áskrifandi að Vísbendingu.