Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, var með tæpar 5,9 milljónir króna á mánuði í laun á síðasta ári. Heildarlaun hans á því ári námu 70,5 milljónum króna og hækkuðu um rúmlega 12 milljónir króna á árinu, eða um eina milljón króna á mánuði.
Eggert Þór tók við forstjórastarfinu í N1 í lok febrúar 2015. Hann hafði áður verið fjármálastjóri þess. Þegar Eggert Þór tók við forstjórastarfinu af Eggerti Benedikt Guðmundssyni, sem var sagt upp störfum, var sú uppsögn sögð vera liður í kostnaðarlækkun N1. Eggert Benedikt hafði verið með 55,9 milljónir króna í laun á árinu 2014, eða tæplega 4,7 milljónir króna á mánuði.
Í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun mars 2015 sagði Eggert Þór að það sæist í ársskýrslu félagsins að hann væri „ódýri forstjórinn“. Laun hans fyrsta árið sem hann sat í stóli forstjóra voru lægri en laun fyrirrennara sín. Heildarlaun hans á því ári voru 43,8 milljónir króna, eða tæplega 3,7 milljónir króna á mánuði. Í fyrra höfðu mánaðarlaun Eggerts Þórs hins vegar hækkað um 2,2 milljónir króna á tveimur árum og heildarlaun hans á ári um 26,7 milljónir króna á sama tíma.
Stærstu eigendur N1 eru þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins: Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Þá er Birta lífeyrissjóður fimmti stærsti eigandi félagsins.
Laun stjórnarmanna N1 hafa líka hækkað á þessu tímabili. Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, var með 7,3 milljónir króna í laun árið 2014. Í fyrra voru heildarlaun hennar fyrir stjórnarformennskuna 8,9 milljónir króna og hafa því hækkað um 1,6 milljónir króna á nokkrum árum. Mánaðarlaun Margrétar eru 720 þúsund krónur.
Helgi Magnússon, varaformaður stjórnarinnar, er með rúmlega 6,4 milljónir króna í árlegar tekjur fyrir stjórnarstörfin. Hann fékk 4,8 milljónir króna fyrir árið 2014 og því hafa árslaun hans hækkað um 1,6 milljónir króna á tímabilinu.
Verkalýðsforystan fordæmis launahækkunina
Fregnir af launahækkunum forstjóra N1 hefur farið illa í verkalýðsforystuna. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins, segir í stöðuuppfærslu á Facebook að hann, Sólveig Anna Jónsdóttir, verðandi formaður Eflingar, Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Aðalsteinn Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar, fordæmi launahækkanir æðstu stjórnenda og forstjóra N1. Laun forstjórans jafngildi launatöxtum 22 afgreiðslumanna hjá N1. „N1 er að stórum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða og því alveg ljóst að líkt og stjórnvöld ætla samtök atvinnulífsins og lífeyrissjóðirnir að gefa tóninn fyrir komandi kjaraviðræður. Við skorum á stjórnendur N1 að veita starfsfólki sínu sambærilegar kjarabætur tafarlaust.“
Vilhjálmur segir í stöðuuppfærslu á Facebook, þar sem hann tengir inn á frétt um launahækkun Eggerts Þórs, að sjálftaka og græðgi stjórnenda íslenskra fyrirtækja haldi áfram eins og engin sé morgundagurinn. „Rétt er að geta þess að lífeyrissjóðir launafólks eiga uppundir 50% í N1 og það er líka rétt að geta þess að það þarf 22 afgreiðslumenn á launatöxtum sem gilda fyrir afgreiðslufólk á bensínstöðvum til að ná mánaðarlaunum forstjórans.
Ég vil tala tæpitungulaust við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins, stjórnvalda og forsvarsmenn lífeyrissjóðanna: þið skulið búa ykkur undir átök verkafólks sem ekki hefur sést á íslenskum vinnumarkaði áður. Þetta var kornið sem stútfyllti mælinn!
Að gefnu tilefni bið ég alla um að skammast ekki í afgreiðslufólkinu hjá N1 því þau geta alls ekkert gert að þessu og þeim er líka misboðið yfir þessari skefjalausu græðgi forstjórans og lykilstjórnenda eins og öðrum í þessu þjóðfélagi.“