„Við skulum vera alveg skýr [...] Við höfnum þeirri hugmynd að taka upp aðra mynt heldur en íslensku krónuna,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem hann er að flytja þegar þetta er skrifað.
Bjarni sagði það orðið augljóst í hans huga, að þegar væri búið að vega og meta kosti og galla við íslensku krónuna og sjálfstæða peningastefnu þjóðarinnar, þá væri það hans skoðun íslenska krónan væri það sem Ísland ætti að halda í og byggja á.
Sagði hann „áróður“ þeirra sem töluðu fyrir evrunni og aðild að Evrópusambandinu, tæki ekki nægilega til kosta þess að búa við sjálfstæði í peningamálum. Sagði hann það barnalegt að halda það Seðlabanki Evrópu myndi taka tillit til hagsmuna Íslands við sínar vaxtaákvarðanir eða stefnumörkun.
Bjarni talaði fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn héldi áfram þeirri vegferð sem hefði hafist, þegar hann kom að stjórn landsins í ríkisstjórn á nýjan leik, eftir kosningarnar 2013. Hann lofaði skattalækkunum, meðal annar lækkun tekjuskatts og tryggingargjalds, og sagði að skattar yrðu einnig lækkaðir á bókum, og raunar ýmsu fleiru.
Í ræðunni ræddi hann einnig um mikilvægi þess að brúa ágreiningsmál, með myndun ríkisstjórnar með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum. Það væri hans von, að með þessu mætti ná breiðri sátt um flókin og erfið mál, og sækja fram í mikilvægum málum, meðal annars í innviðafjárfestingum.
Sagði hann að 150 millljarðar yrðu settir í innviðafjárfestingar á kjörtímabilinu, og að nú væri lag að vernda þann árangur sem hefði náðst á undanförnum árum, um leið og sótt yrði fram.