Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að það sé nauðsynlegt að Ísland fái bankakerfi sem sé fjölbreyttara varðandi viðskiptalíkön og eignarhald heldur en landið hafi í dag. „Ég held að allir séu sammála um það. Nú stendur fyrir dyrum að reyna að setja Arion banka í opið söluferli og útboð. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé ferli sem sé gagnsætt, að það sé eins mikið traust á því og er hægt og að það gangi vel. Vegna þess að það er allra hagur.“ Þetta er meðal þess sem kom fram í sjónvarpsþætti Kjarnans sem frumsýndur var á Hringbraut síðastliðinn miðvikudag. Hægt er að horfa á þáttinn í heild hér að neðan.
Már segir að jafnvel þótt að íslenska ríkið sé ekki eigandi að Arion banka þá sé það samt haghafi þegar kemur að söluferli hans. „Við erum þarna með kerfislega mikilvægan banka. Ákveðinn hluti af greiðslumiðluninni fer þarna í gegn. Við erum með tryggðar innstæður og síðan er þetta auðvitað líka ásýndarmál. Ef þetta gengur vel þá mun það hafa jákvæð áhrif á ásýnd Íslands.“Það sem Már segist hafa meiri áhyggjur af nú um stundir af er að fjármálakerfið sé að komast á þann stað að áhættusækni innan þess sé að aukast. „Það er allt í lagi upp að vissu marki. En þá er það hlutverk eftirlitsaðilanna að sjá til þess að það gangi ekki of langt, það er sótt á að þetta gerist mjög hratt. Og sjá til þess að sá viðbúnaður sem er til staðar[...]að hann haldi. Að það sé ekki farið að bakka of langt út úr því þegar á reynir.[...]Þarna mun reyna á.“