Fríblaðið Mannlíf kom inn um bréfalúgur íbúa höfuðborgarsvæðisins í morgun. Blaðinu er dreift frítt í 80 þúsund eintökum. Um er að ræða samstarfsverkefni útgáfufélagsins Birtíngs og Kjarnans miðla.
Ritstjórn Kjarnans sér um vinnslu frétta, fréttaskýringa, úttekta, skoðanagreina og fréttatengdra viðtala á meðan að ritstjórnir Gestgjafans, Hús og híbýla og Vikunnar vinna áhugavert og skemmtilegt efni inn í aftari hluta blaðsins.
Í Mannlífi er lagt mikið upp úr gæðum efnis úr mörgum áttum og eru efnistök því afar fjölbreytt. Í blaðinu er að finna lífstílstengt efni um heimili, hönnun, ferðalög, mat og drykk í bland við vandaðar fréttaskýringar og viðtöl við áhugavert fólk.
Á meðal efnistaka í blaði dagsins er viðtal við par, þau Láru Guðrúnu Jóhönnudóttur og Kristleif Daðason, sem ræðir opinskátt um frjósemisaðgerð í skugga krabbameins. Þau lýsa meðal annars í viðtalinu reynslu sinni af því þegar Lára greindist með krabbamein og hvernig það var að fara í þrjár eggheimtur á þessu tímabili.
Einnig má finna í blaðinu fréttaskýringar um unglinga í Bandaríkunum sem ætla að breyta byssumenningunni, umfjöllun um afþreyingarefni framtíðarinnar og enn fremur er gert grein fyrir nýlegri skýrslu um hvernig nauðsynlegt sé að aðlaga íslenskt skólakerfi að þörfum nemenda af erlendum uppruna. Þá skrifar Eiríkur Ragnarsson um ríkidæmi Jóakims Aðalandar.