Sjálfstæðismenn í allsherjar- og menntamálanefnd landsfundar flokksins vilja að stefnu í menntamálum verði breytt með margvíslegum áherslubreytingum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, kom inn á menntamál í setningarræðu sinni í gær og sagði meðal annars að það væri umhugsunar efni, að fjölbreytni í rekstrarformum í skólamálum væri mun meira á öðrum Norðurlöndum heldur en á Íslandi.
Í ályktun um menntamál segir að endumeta þurfi rekstrarform og nýsköpun í skólastarfi. „Fjölbreytt rekstrarform, nýsköpun og minni miðstýring í skólastarfi er mikilvægur þáttur í að auka gæði menntakerfisins. Auka þarf gæðamat og gera samræmda mælikvarða til að meta árangur skóla og skólastiga. Mælingar á gæðum í íslensku skólastarfi benda til þess að ýmsu sé ábótavant, einkum á grunnskólastigi. Má í því samhengi nefna niðurstöður PISA kannana og sérstaklega námsárangur ungra drengja. Leggja þarf aukna áherslu á lestur, stærðfræði og náttúruvísindi til að tryggja að íslenskir nemendur séu ekki eftirbátar í alþjóðlegu tilliti og til að bæta gæði skólastarfs. Fjármálalæsi er einnig mikilvæg grundvallarfærni sem skilar sér í auknum skilningi, betri ákvarðanatöku og fjárhagslegri ábyrgð einstaklinga, sem stuðlar aftur að aukinni hagsæld. Athuga þarf sérstaklega stöðu drengja í skólakerfinu, en þriðjungur drengja getur ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og drengir eru einungis þriðjungur af nýnemum í háskólum,“ segir í ályktun nefndarinnar.
Þá er einnig fjallað um mikilvægi þess að tengja menntastefnu þjóðarinnar við þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma, og að grundvallarforsenda skólastarfsins verði sú að jöfn tækifæri verði fyrir alla. „Hagvöxtur, bætt lífskjör og samkeppnishæfni Íslands byggja á menntun og vísindastarfi. Góð menntun er grundvallarforsenda jafnra tækifæra og lykill að lífsgæðum einstaklinga, opnu samfélagi og er forsenda öflugs atvinnulífs og samkeppnishæfni. Auka þarf námsframboð og fjölga sjálfstætt starfandi skólum. Miklar breytingar eru að verða á atvinnulífi og vinnumarkaði sem færa okkur í senn nýjar áskoranir og tækifæri, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Þar má nefna öra þróun þekkingar og tækni með þeirri auknu sjálfvirknivæðingu sem 4. iðnbyltingin hefur í för með sér, bæði innanlands og á alþjóðamarkaði, stóraukinn fjölda innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Fjöldi núverandi starfa mun úreldast og ný verða til. Slíkt hefur jafnframt þá hættu í för með sér að þeir sem í dag sinna störfum sem munu hverfa, missi hæfni sína til þátttöku á vinnumarkaði. Því er fjölbreytilegt, skapandi og hagkvæmt menntakerfi lykillinn að kraftmiklu og arðskapandi atvinnulífi þar sem fólk mun þurfa að mennta sig alla ævina með sí- og endurmenntun.“