Í ályktun allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins kemur fram að flokkurinn vilji afnema virðisaukaskatt á fjölmiðla, til að treysta stoðir reksturs þeirra.
Þegar kemur að Ríkisútvarpinu (RÚV) segir að það eigi að hverfa af auglýsingamarkaði. Í dag koma tekjur RÚV af fjárlögum með útvarpsgjaldinu og síðan af auglýsingamarkaði, en sú upphæð nemur rúmlega tveimur milljörðum króna árlega.
Í ályktuninni segir að rekstur fjölmiðla sé mikilvægur lýðræðinu, gagnsæi og trúverðugleika í samfélaginu. „Endurskoða þarf hlutverk ríkisútvarpsins með það að markmiði að þrengja verksvið þess í ljósi breytinga sem orðið hafa á fjölmiðlamarkaði. Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. RÚV á að fara af auglýsingamarkaði. Horfa þarf m.a. til ýmissa tillagna sem koma fram í nýlegri fjölmiðlaskýrslu og hrinda þeim í framkvæmd. Afnema ber virðisaukaskatt af fjölmiðlum, bæði til að styrkja rekstur þeirra og samræma skattaumhverfi. Auka þarf almennt gegnsæi í eignarhaldi fjölmiðla og tryggja áreiðanleika skráningar. RÚV þarf að leggja aukna áherslu á sérstöðu sína, m.a. gagnvart öðrum miðlum. Það endurspeglast m.a. í því að leggja aukna áherslu á innlent efni á kostnað erlends afþreyingarefnis. Styðja þarf við framleiðslu á vönduðu íslensku sjónvarpsefni á íslenskri tungu, sérstaklega því sem er miðað að börnum og ungmennum,“ segir í ályktun nefndarinnar.