„Sjálfstæðisflokkurinn vill áframhaldandi uppbyggingu Landspítala (LSH). Lokið verði
þeirri uppbyggingu á Landspítalalóð sem er komin á framkvæmdastig og tengist
núverandi starfsemi. Farið verði tafarlaust í staðarvalsgreiningu fyrir
framtíðaruppbyggingu sjúkrahúsþjónustu með öryggi og sterkari samgönguleiðum að
leiðarljósi. Þannig verði horft til nýrra og breyttra þarfa, fleiri valkosta fyrir starfsmenn
og sjúklinga og hugsanlega annars konar sérhæfingu á næstu áratugum.
Skipa þarf sérstaka stjórn yfir LSH til stuðnings við stjórnendur og eftirfylgni með
eigendastefnu spítalans. Samhliða uppbyggingu Landspítala verði aðferðir við
fjármögnun og rekstur sjúkrahúsa endurskoðaðar.“
Þannig hljómar ályktun velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins sem nú hefur verið samþykkt inn í stefnu flokksins. Segja má að þetta sé skýr stefnubreyting frá því sem verið hefur, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut, það er í vinnu ráðuneyta sem hann hefur stýrt og með þátttöku í ríkisstjórnum sem hafa komið að málinu. Innan flokksins hafa þó ávallt verið uppi ólík sjónarmið, eins og kristallast í þessari núverandi stefnu flokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fagnar þessari ákvörðun landsfundar flokksins. „Ég óska sjálfstæðismönnum til hamingju með breytta ályktun landsfundar um Landspítalann. Nú er hægt að gera góða hluti. Verðum bara að vona að þingmenn flokksins líti ekki fram hjá þessu eða reyni að endurtúlka það,“ segir Sigmundur Davíð á Facebook síðu sinni.
Unnið er eftir því að byggja upp nýjan Landspítala í áföngum, og á vinna við meðferðarkjarna að hefjast í sumar, og eru slík áform meðal annars nefnd í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Reiknað er með því að hann komist í notkun 2023, en uppbygging spítalans er gríðarlega umfangsmikið verkefni.
Í ítarlegri grein Þorkels Sigurlaugssonar og Hans Guttorms Þormars, sem birtist á vef Kjarnans 1. mars, segir að vinna við nýja staðarvalsgreiningu, og því sem henni fylgir, geti seinkað uppbyggingu spítalans um 10 til 15 ár. Nú þegar hafi farið fram margra ára undirbúningsvinna, sem hafi leitt stjórnvöld og sveitarfélög að því verkefni sem nú sé þegar hafið, að byggja upp spítalann við Hringbraut.