Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði í dag með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Á þeim fundi ræddu þær meðal annars útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, stjórnmálaástandið á Íslandi og mál Hauks Hilmarssonar.
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að þær hafi einnig rætt samskipti þjóðanna, stöðu stjórnmála í Þýskalandi nú þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við og ýmis málefni á alþjóðavettvangi. „Fjölluðu þær m.a. um mannréttindamál, jafnrétti kynjanna, málefni flóttafólks og hælisleitenda, varnarmál, umhverfismál, málefni norðurskautsins, menningarmálefni og áhuga Þjóðverja á Íslandi, sem m.a. endurspeglast í fjölda þýskra ferðamanna hér á landi.“
Katrín segir að fundurinn hafi verið gagnlegur. „Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að rækta okkar góðu samskipti við Þýskaland á tímum áskorana og breytinga á alþjóðavettvangi.“