„Mér er það alveg ljóst að laun forstjóra N1 eru mjög góð og eru alveg sérlega há á árinu 2017 eins og fram hefur komið. Ég vil hins vegar fullvissa ykkur um það, að við fylgjumst grannt með launahlutföllum innan félagsins þannig að tryggt sé að þróun launa yfirstjórnarinnar fari ekki úr takti við launaþróun almennra starfsmanna,“ segir Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, í skýrslu stjórnar N1 vegna rekstrarársins 2017, en aðalfundur félagsins stendur nú yfir.
Eins og kunnugt hefur verið, þá hafa launakjör forstjóra N1, Eggerts Kristóferssonar, verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af stéttarfélögum. Í harðorðri yfirlýsingu frá formönnum VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar, segir að launaþróun stjórnenda í atvinnulífinu sé orðin að „leikhúsi fáranleikans“. Alltof mikið bil sé orðið milli stjórnenda og fólksins á gólfinu. Efling og VR, þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson eru formenn, eru stærstu stéttarfélög landsins með um 60 þúsund félagsmenn samtals.
Í skýrslu stjórnar N1 er ítarlega fjallað um launakjör hjá félaginu, og meðal annars vikið að kaupaukakerfinu sem í gildi er í félaginu. „Á undanförnum dögum hefur skapast mikil umræða um þau laun sem Eggerti Þór Kristófersyni, forstjóra N1 voru greidd fyrir störf hans hjá félaginu á árinu 2017. Umræðan er skiljanleg, þó ekki væri af öðrum ástæðum en þeim, að litlar skýringar fylgja í reikningi félagsins og launin eru há enda þarf sá sem starfinu gegnir að vera reynslu mikill og vera með talsverða hæfileika til að tryggja góðan rekstur og að þróa félagið til framtíðar í síbreytilegu umhverfi. Aðalfundur félagsins hefur ár hvert samþykkt starfskjarastefnu, eins og hlutafélagalög áskilja. Þar kemur fram að markmið starfskjarastefnunnar sé að félagið geti boðið samkeppnishæf starfskjör og ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk og stjórnendur. Til þess þurfi að bjóða samkeppnishæf laun við það sem tíðkast hjá samkeppnisfyrirtækjum. Við teljum okkur gera það. Félagið hefur verið eftirsóttur vinnustaður og starfsmannavelta almennt lág og starfsþróunarmöguleikar umtalsverðir. Að því er laun almennra starfsmanna á þjónustustöðvum varðar byggjum við í grunninn á kjarasamningum stéttarfélaga þeirra, en persónubundinn matsþáttur kemur þar Aðalfundur N1, 19. mars, 2018 einnig til. Stjórnendur þjónustuþátta á tugum starfsstöðva félagsins um land allt eru launaðir skv. persónubundum samningum og félagið leitast við að verðlauna frammistöðu og árangur,“ segir í skýrslunni.
Í skýrslunni segir enn fremur að kaupaukakerfið byggi að stofni til á grunni sem rekja má til ársins 2013 þegar ákvörðun um skráningu félagsins á markað var tekin. Þar er meðal annars vikið að því að greiða með árangurstengd launa. Þetta sé stefna sem legið hafi fyrir, og ætti því ekki að koma hluthöfum félagsins á óvart. Vikið sé sérstaklega að því á hvaða forsendum megi umbuna fyrir góðan árangur. „Í fyrsta lagi megi greiða þeim árangurstengd laun og í öðru lagi megi veita þeim kauprétti að hlutafé. Starfskjaranefnd félagsins er af hálfu stjórnar mótandi um framkvæmd starfskjarastefnunnar. Hún hefur ekki talið æskilegt að nýta þessa árangurshvata hvoru tveggja, en augljóst er að stjórnendur hefðu haft af því verulegan fjárhagslegan ávinning ef heimildir til útgáfu kauprétta hefðu verið nýttar, svo mjög sem verðmæti hluta í félaginu hefur aukist síðustu fjögur árin. Núverandi kaupaukakerfi félagsins er að megin stofni frá árinu 2013 þegar N1 var skráð í Kauphöllina. Því var breytt að hluta til árið 2016 og tekur það nú tillit til bæði fjárhagslegrar afkomu, þ.e.a.s. árlegrar EBITDA í hlutfalli við áætlun og einstaklingsbundinna verkefna yfirstjórnenda. Þannig telja einstaklingsbundin verkefni 20% og EBITDA 80%. EBITDA bilið sem kaupaukinn nær til er 95-110%. Geta kaupaukagreiðslur til forstjóra hæst numið 6 mánaðarlaunum og til framkvæmdastjóra 3 mánaðarlaunum og hafa kaupaukagreiðslur svarað til 1 mánaða launa fram til ársins 2015 þegar afkoma félagsins tók að batna verulega og náði hámarki í fyrra vegna góðrar afkomu ársins 2016. Árið 2016 var besta árið í sögu N1 og árangur á alla mælikvarða fór langt fram úr væntingum. Það leiddi til þess að skilyrðum kaupaukakerfisins fyrir hámarksgreiðslu var mætt. Þær greiðslur komu til framkvæmda í mars árið 2017 eftir að reikningur ársins 2016 hafði verið staðfestur og reiknast því sem hluti af launagreiðslum ársins 2017,“ segir í skýrslunni.
Stærstu hluthafar N1 eru lífeyrissjóðir, en stærsti einstaka eigandinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 13,3 prósent hlut. Markaðsvirði félagsins er 30,5 milljarðar króna, miðað við lokagengi við lokun markaða í dag. Eigið fé félagsins var 13,8 milljarðar í lok árs í fyrra.