23 þingmenn úr sex stjórnmálaflokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Í henni felst að kosið yrði um hvort flugvöllurinn eigi áfram að vera í Vatnsmýrinni eða ekki. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu yrði alltaf ráðgefandi, en ekki bindandi.
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Allir þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins eru á meðal flutningsmanna. Auk þeirra eru sjö þingmenn Sjálfstæðisflokks á tillögunni. Þá eru þær Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttur úr Framsóknarflokki og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, á meðal flutningsmanna. Það er líka Jón Þór Ólafsson frá Pírötum. Einu flokkarnir sem eiga fulltrúa á Alþingi sem eru ekki með flutningsmann á tillögunni eru Samfylking og Viðreisn.
Sjúkrahús við Hringbraut notað sem rök
Tillagan gerir ráð fyrir því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Sambærilegar tillögur voru fluttar haustið 2016 og vorið 2017 en fengu ekki brautargengi á þingi.
Í greinargerð segir að markmið tillögunnar sé að „ þjóðin fái tækifæri til þess að segja hug sinn um málið og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna. Ljóst er að ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innan lands og að staðsetning flugvallarins, sem er miðstöð innanlandsflugs, hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Flugvöllurinn gegnir mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning í landinu vegna sjúkra- og neyðarflugs svo og sem varaflugvöllur. Þá gegnir flugvöllurinn mjög mikilvægu hlutverki í almannavarnakerfi landsins.“
Þá er sérstaklega tiltekið að stjórnvöld hafi markað þá opinberu stefnu í heilbrigðismálum að aðeins verði byggt upp og rekið eitt hátæknisjúkrahús og það við Hringbraut í Reykjavík, í næsta nágrenni við flugvöllinn. „Greiðar samgöngur milli flugvallar og sjúkrahússins eru því afar mikilvægar.“
Á að víkja í áföngum eftir 2022
Ekki hefur verið einhugur um hvort að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík eða verði færð annað. Ráðandi öfl í Reykjavíkurborg hafa lengi viljað að flugvöllurinn verði færður svo hægt sé að byggja í Vatnsmýrinni og þétta þar með höfuðborgina. Um sé að ræða verðmætasta byggingarlandið innan marka hennar sem sé auk þess afar mikilvægt fyrir þróun hennar.
Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir að flugvöllurinn verði þar sem hann er til 2022 en aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að hann víki í áföngum eftir það ár. Sumarið 2016 komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið þurfi að standa við samkomulag sitt við Reykjavíkurborg um loka norðaustur/suðvestur-flugbrautinni, sem stundum er kölluð neyðarbrautin, á Reykjavíkurflugvelli.
Fyrsta þingsályktunartillagan um þjóðaratkvæðagreiðsluna var lögð fram í kjölfarið.