Í að það minnsta vantar um 160 til 170 milljarða króna til að styrkja vegakerfi landsins. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, og segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, að honum sé fullkunnugt um það hversu slæm staða sé víða á landinu, þegar kemur að vegamálum og viðhaldi samgöngumannvirkja.
Álag á vegakerfið hefur stóraukist með miklum vexti í ferðaþjónustu, og nemur umferðaraukningin víða á landinu tugum prósenta vegna hans.
Sigurður Ingi boðar heildstæða samgönguáætlun, þar sem ekki er hugsað til skamms tíma heldur til langrar framtíðar, en þessi misserin er verið að vinna að samgöngu- og ríkisfjármálaáætlun.
Fram kom í máli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, á landsfundi flokksins um helgina, að 150 milljarðar króna myndu á næstu árum fara í innviðafjárfestingar, en gera má ráð fyrir að bróðurparturinn af þeirri upphæð sé vegna fjárfestinga í samgöngumannvirkjum.
Einn viðmælenda Morgunblaðsins í dag, Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hlaðbæjar Colas, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að nú sé að koma í ljós slæmt ástand og miklar afleiðingar þess að hafa ekki sinnt viðhaldi nægilega vel. Krónum hafi verið kastað fyrir aura, og það hafi reynst dýrkeypt.