Stærstu hluthöfum norska flugfélagsins Norwegian býðst nú að kaupa hlutabréf í félaginu fyrir 1,3 milljarða norskra króna, eða sem nemur um 17 milljarða íslenskra króna.
Fjármögnunin hófst í dag, og er fresturinn til að tilkynna þátttöku gefinn þar til í fyrramálið, samkvæmt tilkynningu frá Norwegan. Félagið á í harðri samkeppni við önnur flugfélög, ekki síst þau norrænu, þar á meðal Icelandair og WOW Air.
Vonir standa til þess að hið auka fé muni tryggja stöðu félagsins og gera því mögulegt að sækja fram, að því er fram kemur í umfjöllun www.turisti.is.
Vöxtur Norwegian hefur verið hraður síðustu ár og er félagið nú orðið það stærsta á Norðurlöndum, sé horft til heildarfarþegafjölda og ferða.
Umsvifin takmarkast þó ekki aðeins við flug til og frá Norðurlöndunum því félagið er með starfstöðvar í nokkrum Evrópulöndum, vestanhafs og í Argentínu.
„Reksturinn hefur hins vegar verið þungur og á síðasta ári tapaði félagið um 300 milljónum norskra króna, um 3,8 milljörðum íslenskra króna. Þetta ár byrjar líka illa og því hefur félagið lækkað afkomuspá sína en tapreksturinn er aðallega rakinn til hækkandi olíuverðs,“ segir í umfjöllun Túrista.
Lets hope that Ryanair CEO is wrong about Norwegian. We love @Fly_Norwegian& is showing the rest how its done! https://t.co/FKrWHDjJgq
— Clearwater Events (@ClearwaterEvent) September 8, 2017
Ekki er langt síðan að Michael O´Leary, forstjóri Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, lét hafa eftir sér að staða Norwegian væri erfið. Hann hefur ítrekað fullyrt að Norwegian sé eitt þeirra evrópsku flugfélaga sem eigi sér ekki langa framtíð og Karl Johan Molnes, frá verðbréfafyrirtækisins Norne Securities, er líka svartsýnn á framhaldið.
Í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv nú í kvöld segir hann að það komi honum ekki á óvart að Norwegian verði að sækja aukið hlutafé en miðað við gang mála þá verði þetta ekki í síðasta skipti sem eigendurnir verði að láta aukið fjármagn í félagið.