„Síðan er bara orðin spurning hvort að efstu lögin í samfélaginu séu orðin það botnlaust gráðug að það þurfi að koma böndum á þetta með lagasetningu.“ Þetta segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut sem frumsýndur verður klukkan 21 í kvöld. Þar ræðir hún, ásamt Þorsteini Víglundssyni, varaformanni Viðreisnar og fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins, kjaramál, stéttabaráttu og áhrif fregna um ofurlaun á þá flóknu stöðu sem er uppi á vinnumarkaði. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að ofan.
Drífa segir að skotgrafirnar í kringum ofurlaunaumræðuna séu vel þekktar. „Kjararáð kemur með einhver úrskurð, við verðum vitlaus, allir verða vitlausir, við förum í fjölmiðla. Svo koma einhverjir forstjórar og fá einhverjar hækkanir. Allt verður vitlaust. Við hótum því að fara í verkföll. Þetta er einhver dans sem við þekkjum svo vel.“
Að sama skapi þurfi að ræða hver eðlilegur tekjumunur sé innan fyrirtækja á einkamarkaði. „Hann er sennilega 20faldur innan sumra fyrirtækja. Sum lönd hafa farið þá leið að setja klásúlu í ársreikningalögin þar sem fyrirtækjum ber skylda til að greina frá tekjumismun innan hvers fyrirtækis. Það er ágætis byrjun. [...] Hvað er verið að borga hæstlaunaða og hvað er verið að borga lægst launaða.“