Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sendi í dag heillaóskir til forseta Rússlands, Vladímírs Pútíns, sem var kjörinn á ný í embætti um helgina.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.
Í kveðju sinni minnir forseti á þá skyldu þjóðarleiðtoga að vinna að öryggi og hagsæld íbúa. Brýnt sé að fulltrúar ríkja geti rætt saman af hreinskilni. „Miklu skiptir að þjóðarleiðtogar leiti ætíð friðsamlegra lausna þar sem ófriður ríkir og styðji hvarvetna öryggi, hagsæld og einstaklingsfrelsi,“ segir Guðni.
Loks segir forseti í bréfi sínu að þrátt fyrir miklar sviptingar á alþjóðavettvangi hafi gagnkvæm samskipti Íslands og Rússlands verið báðum ríkjum hagfelld. Heilladrjúg framtíð norðurslóða og íbúa þeirra byggist á sjálfbærri þróun, umhverfisvernd og góðri samvinnu þjóðanna sem þar búa.
Vladímír Pútín vann yfirburðasigur í forsetakosningunum í Rússlandi síðastliðinn sunnudag. Hann hlaut 76,7 prósent atkvæða en það er besta kosning sem hann hefur hlotið í forsetakosningum hingað til.