Kristín Pétursdóttir, fyrrverandi forstjóri Mentors, mun taka við formennsku í stjórn Kviku banka af Þorsteini Pálssyni á aðalfundi bankans í dag. Þorsteinn hefur verið stjórnarformaður bankans um árabil, frá því að bankinn var endurreistur, þá undir nafni forverans, MP banka.
Frá þessu er greint í Markaðnum í dag.
Kristín var áður formaður stjórnar Virðingar, og var stofnandi Auðar Capital sem sameinaðist Virðingu. Þá var Kristín þar áður einn af stjórnendum Kaupþings, líkt og Ármann Þorvaldsson, en hann er nú forstjóri Kviku.
Bankinn var nýlega skráður á markað, og var markaðsvirði hans um 12 milljarðar króna. Hagnaður bankans var 1,6 milljarðar króna í fyrra. Stærstu hluthafar Kviku eru tryggingafélagið VÍS með 23,31 prósents hlut, félag í meirihlutaeigu Sigurðar Bollasonar fjárfestis, sem á 9,22 prósenta hlut, og Lífeyrissjóður verslunarmanna með 8,86 prósent.
Heildareignir Kviku í lok árs námu 75,5 milljörðum króna, en til samanburðar eru eignir ríkisbankanna tveggja, Íslandsbanka og Landsbankans, nú samanlagt um 2.300 milljarðar króna.
Kvika er með stærstu aðilunum á íslenskum eignastýringarmarkaði með 263 milljarða króna í stýringu.