Stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna mótmælir harðlega þeirri „sjálftöku launa sem á sér stað meðal stjórnenda“ í íslenskum fyrirtækjum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórninni, er þar talað um „huldýpi“ milli stjórnenda og fólks á gólfi. „Þrátt fyrir að ákvörðunum kjararáðs hafi verið mótmælt harðlega og þrátt fyrir að ríkisstjórninni hafi gefist kostur á að leiðrétta þessa óhæfu, þá reyndist hún ekki hafa þann kjark sem til þurfti þegar að á reyndi. Á sama tíma er því haldið að launafólki að vera hófstillt í launakröfum til þess að viðhalda stöðugleika í samfélaginu. Það ríkir hins vegar ekki stöðugleiki hjá íslensku launafólki sem þarf á sama tíma að takast á við skerðingar barna- og vaxtabóta og raunlækkunar á persónuafslætti sem ekki fylgir almennri launaþróun og hefur ekki gert í áraraðir,“ segir í yfirlýsingunni.
Síðan segir að ögrun eins og þessi verði ekki liðin, og að hún muni valda upplausn á almennum vinnumarkaði. Fyrir hönd stjórnarinnar skrifa undir yfirlýsinguna Guðbrandur Einarsson, formaður LÍV og Verslunarmannafélags Suðurnesja, Kristín M. Björnsdóttir, varaformaður LÍV og formaður deildar verslunarmanna VR á Austurlandi, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Eiður Stefánsson, formaður Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri, Hjörtur Geirmundsson, formaður Verslunarmannafélags Skagafjarðar, Gils Einarsson, formaður deildar verslunarmanna VR á Suðurlandi, og Svanhildur Þórsteinsdóttir.