Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, birti á Facebook síðu sinni yfirlýsingu fyrir stundu, þar sem hann fjallar um málið sem snýr að söfnun Cambridge Analytica á gögnum frá Facebook, sem síðan voru notuð í kosningabaráttum viðskiptavina fyrirtækisins, þar á meðal í Brexit kosningunum í Bretlandi og forsetakosningunum í Bandaríkjunum haustið 2016.
Zuckerberg segir að það hafi verið á ábyrgð Facebook að vernda gögn notenda, en eins og fram hefur komið þá er Cambridge Analytica talið hafa misnotað gögn sem fyrirtækið komst yfir, og brotið með því bæði skilmála Facebook og persónuverndarlög.
„Það er á okkar ábyrgð að vernda gögnin og ef við getum það ekki þá eigum við ekki skilið að þjóna ykkur. [...] Ég hef reynt að komast að því hvað gerðist í raun og veru og hvernig hægt er að sjá til þess að þetta gerist ekki aftur [...] En við gerðum einnig mistök og það þarf að vinna áfram við að ráða fram úr vandanum. Við þurfum að bæta okkur og gera það,“ segir Zuckerberg í yfirlýsingu sinni.
Hann segir að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli Facebook, Cambridge Analytica og Aleksandr Kogan, forritara.
Zuckerberg hét því að kynna til sögunnar breytingar sem munu gera smáforritum frá þriðja aðila erfiðara fyrir varðandi söfnun á upplýsingum um notendur Facebook.
Rannsóknir eru nú hafnar á starfsemi Cambridge Analytica, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, en talið er að fyrirtækið hafi komist yfir persónuupplýsingar hjá yfir 50 milljónum notenda, og nýtt í þeim tilgangi að hafa áhrif á kjósendur.
Markaðsvirði Facebook hefur fallið nokkuð undanfarna daga og er nú tæplega 500 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 50 þúsund milljörðum króna.