Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi sjálfstæðismanna verður ekki meðal frambjóðenda flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum. Eftir að hafa tapað í oddvitakjöri gegn Eyþóri Arnalds sóttist hún eftir sæti neðar á framboðslistanum en var ekki boðið neitt sæti. Áslaug hefur talað fyrir þéttingu byggðar, lýst vilja til að ræða borgarlínu og viljað starfa með meirihlutanum í Reykjavík að þeim málum sem hún hefur getað séð sameiginlegan flöt á. Í ítarlegu viðtali í nýjustu útgáfu Mannlífs segist Áslaug hafa orðið fyrir vonbrigðum.
„Með þessu tekur flokkurinn þá áhættu að höfða til þrengri hóps en hann hefði annars gert nema að einhverjir á framboðslistanum tali til þess hóps. Ég er ekki sú eina sem er á þessari málefnalínu og veit að meðal nýrra frambjóðenda er fólk sem er sammála mér um margt. Ég vona að þeir frambjóðendur fylgi sannfæringu sinni og láti ekki þagga niður í sér.“
Hún segist hafa orðið meira og meira vör við þá kröfu að allir þurfi að hafa sömu skoðanir til að vera gjaldgengir innan flokksins í Reykjavík. „Ég tel að í gegnum tíðina hafi það verið einn helsti styrkleiki flokksins að hafa umburðarlyndi fyrir blæbrigðum skoðana innan hans. Þetta umburðarlyndi hefur verið ein forsenda þess að flokkurinn hefur verið jafn stór og raun ber vitni. Skortur á þessu umburðarlyndi mun ekki stækka heldur þvert á móti minnka flokkinn í Reykjavík.“
Fríblaðið Mannlíf kom inn um bréfalúgur íbúa höfuðborgarsvæðisins í sjöunda sinn í morgun. Blaðinu er dreift frítt í 80 þúsund eintökum. Um er að ræða samstarfsverkefni útgáfufélagsins Birtings og Kjarnans miðla.
Í Mannlífi er lagt mikið upp úr gæðum efnis úr mörgum áttum. Ritstjórn Kjarnans sér um vinnslu frétta, fréttaskýringa, úttekta, skoðanagreina og fréttatengdra viðtala á meðan að ritstjórnir Gestgjafans, Hús og híbýla og Vikunnar vinna áhugavert og skemmtilegt efni inn í aftari hluta blaðsins.
Efnistök eru því afar fjölbreytt. Í Mannlífi er að finna lífstílstengt efni um heimili, hönnun, ferðalög, mat og drykk í bland við vandaðar fréttaskýringar og viðtöl við áhugavert fólk.