Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, segir að hann vilji að horft verði til þess að taka upp útgreiðanlegan persónuafslátt þegar skattkerfinu verði breytt. Sá persónuafsláttur myndi svo minnka eftir því sem tekjur yrðu hærri og þeir sem væru með hærri tekjur en 700-800 þúsund krónur á mánuði myndu ekki fá neinn persónuafslátt. Þetta yrði leið sem myndi gagnast lægstu tekjuhópunum best. Þorsteinn var annar gesta síðasta sjónvarpsþáttar Kjarnans á Hringbraut. Hinn gestur þáttarins var Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. Þáttinn í heild sinni er hægt að sjá hér að neðan:
Í þættinum sagði Þorsteinn að þegar hann hafi verið félags- og jafnréttismálaráðherra þá hafi verið lögð áhersla á að vinna að úrbótum hvað varðar húsnæðismál og millifærslukerfa í ráðuneyti hans.Auknir erfiðleikar fólks við að koma þaki yfir höfuðið og minnkandi hlutverk bótakerfa skipti klárlega máli við að skapa þá stöðu sem nú er uppi. Mikið af húsnæði vanti inn í flóruna sem ætlað sé þeim helmingi þjóðarinnar sem er með minnst á milli handanna. „Þar þurfa sveitarfélögin að koma miklu sterkara inn með framboð því þrátt fyrir alla þá kosti sem fylgja þéttingu byggðar hér á höfuðborgarsvæðinu þá má samt ekki gleyma því að þetta eru dýrar íbúðir sem við erum að byggja. Hópurinn sem líður fyrir skortinn er lágtekjuhópurinn. Þarna þarf að gera bragabót á.“
Að hans sögn hafa tekjutilfærslukerfi, á borð við barna- og húsnæðisbótakerfi, veikst hérlendis. Hann vill horfa til tillagna sem komu fram á vettvangi Samráðsvettvangs um aukna hagsæld á sínum tíma. „„Þær voru ekki gallalausar en þær miðuðu að því að það væri mun hærri útgreiðanlegur persónuafsláttur sem myndi nýtast lægsta hópnum hvað mest. Hann myndi síðan bara þrepast niður þannig að einstaklingur með 700--800 þúsund krónur á mánuði hefði engan persónuafslátt lengur. Meðal annars var líka lagt upp með að aleggja af samsköttun hjóna, sem er gríðarlegt jafnréttismál á vinnumarkaði. Að einstaklingar séu bara skattlagðir hver um sig. Það er gríðarlega atvinnuþátttökuhvetjandi fyrir bæði kynin.