Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa lagt fram 45 prósent þeirra frumvarpa sem þeir boðuðu með þingmálaskrá í upphafi nýs þings. Framlagningarfrestur nýrra mála rennur út um mánaðarmótin en síðasti þingfundardagur er í dag.
Eftir framlagningarfrest þar að leita afbrigða til að leggja fram ný mál. Tveir þriðju þingmanna þurfa að samþykkja afbrigði, en ríkisstjórnin hefur stuðning 35 þingmanna af 63, ef Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn Vinstri grænna eru talin með. Þrátt fyrir að hafa ekki stutt myndun núverandi ríkisstjórnarinnar hafa þau hingað til stutt öll mál ríkisstjórnarinnar, en studdu þó vantrautstillögu stjórnarandstöðunnar gegn Sigríði Andersen dómsmálaráðherra.
Í málaskrá ríkisstjórnarinnar eru boðuð 110 frumvörp á þessu þingi, auk fjölda þingsályktunartillagna og reglugerðabreytinga. Alls hafa 50 frumvörp komið frá ríkisstjórninni það sem af er þessu þingi.
Sem dæmi um frumvörp sem beðið er eftir er breyting á lögum um persónuvernd, sem innleiðir löggjöf Evrópuþingsins og mun koma til framkvæmda þann 25. maí. Um er að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í tvo áratugi. Einnig einnig er annars frumvarps frá dómsmálaráðherra beðið en það snýr að lagabreytingum vegna uppreist æru málsins svokallaða. Boðað hefur verið frumvarp til breytinga á ýmsum lögum, vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á almennum hegningarlögum við lok síðasta þings, sem heimiluðu forseta Íslands til að veita manni, sem fengið hefur refsidóm sem hefur í för með sér flekkun mannorðs, uppreist æru.
Að auki eru stór mál, sem þó eru ekki frumvörp, ókomin. Þar má helst nefna fjármálaáætlun fjármálaráðherra, sem á lögum samkvæmt að leggja fram sem þingsályktun fyrir 1. apríl ár hvert. Ekki er búist við því að áætlunin komi fyrir þingið fyrir þann tíma og þarf því líklegast að taka hana fyrir með afbrigðum. Fjármálaáætlun er byggð á fjármálastefnu hins opinbera, grunngildum hennar og skilyrðum. Hún felur í sér ítarlega útfærslu á markmiðum sem sett eru fram í þeirri stefnu, dýpkar nánar markmið fjármálastefnu og greinir hvernig þeim verði náð frá ári til árs. Markmið með fjármálaáætluninni er að útfæra markmið um tekjur og gjöld hins opinbera og þróun þeirra.
Að auki samgönguáætlun, sem ráðherra boðaði að yrði lögð fyrir þingið í febrúar. Ekki er þó búist við áætluninni frá samgönguráðherra fyrr en í haust. Þar er um að ræða annars vegar tillaga til þingsályktunar að nýrri fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2018 til 2021 og hins vegar til tólf ára fyrir árin 2018 til 2029. Samgönguáætlun tekur til fjáröflunar og útgjalda til allra greina samgangna, þ.e. flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála og umhverfismála samgöngugreina. Þar skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Við gerð samgönguáætlunar skal m.a. byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.
Þingmenn hafa kvartað reglulega yfir of fáum málum frá ríkisstjórninni. Í lok febrúar sagði Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar svo lítið að gera hjá þinginu að „ef við værum í fiskvinnslu væri sennilega búið að senda okkur heim vegna hráefnisskorts.“ Þorsteinn sagði fá mál á dagskrá og þau væru ýmist smávægilegar lagfræðingar eða endurflutt mál nær óbreytt frá fyrri ríkisstjórn.
Athygli vekur að Lilja Alfreðsdóttir hefur ekki lagt fram eitt frumvarp af þeim sem fimm sem þingmálaskráin gerir ráð fyrir frá mennta- og menningarmálaráðherra. Hún hefur þó lagt fram frumvarp um afnám virðisaukaskatts á bækur. Þá hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ekki lagt eitt frumvarp fyrir þingið, en þingmálaskráin gerir hins vegar aðeins ráð fyrir tveimur málum frá honum, en hins vegar gríðarlegum fjölda þingsályktunartillagana vegna Evróputilskipana. Guðlaugur hefur lagt fram fimm þingsályktunartillögur það sem af er þingi.