Meðal þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í gegn brottnámi í framhaldsskólum eru nánari kortlagning brotthvarfshópanna og reglulegri mælingar á brotthvarfi. Brotthvarf nemenda úr skólakerfinu var til umfjöllunar á fundi Velferðarvaktarinnar, samráðsvettvangi á sviði velferðarmála þann 20. mars síðastliðinn. Að Velferðarvaktinni standa ýmis samtök, aðilar vinnumarkaðarins, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin. Fram kom á fundinum að lykilatriði í því að minnka brotthvarf nemenda væri snemmtæk íhlutun á grunnskólastigi og því væri mikilvægt að forgangsraða í þágu þess.
Þetta kemur fram í frétt mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
„Velferðarvaktin er svo sannarlega á réttri leið. Snemmbær íhlutun er helst það sem kennarasamtökin hafa bent á varðandi það að draga úr brottfalli. Stuðningur við nemendur í framhaldsskólanum, bæði sálfræðiþjónusta og svo auðvitað náms og starfsráðgjöf munu hafa gríðarlega jákvæð áhrif á líðan nemenda og væntanlega draga úr brottfalli,“ segir Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax í grunnskóla
Guðríður segir jafnframt að löngu sé orðið tímabært að stjórnvöld ráðist í aðgerðir gegn brottfalli í framhaldsskólum. Hún segir að mikilvægt sé að bregðast fljótt við og að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða strax í grunnskóla. Til að mynda sé mikilvægt að efla náms- og starfsráðgjöf. „Íslensk ungmenni þjást af kvíða og þunglyndi og eru þetta mjög hamlandi þættir. Þess vegna er gott að hafa sálfræðiþjónustu. En það er líka allt of lítið af náms- og starfsráðgjöfum í grunn- og framhaldsskólum. Úr þessu þarf að bæta,“ segir hún.
Þrátt fyrir að vera jákvæð gagnvart aðgerðum og yfirlýsingu menntamálaráðherra, þá bendir Guðríður á að ekki megi missa sjónar af hvað veldur. „Það þarf að komst fyrir lekann, ekki bara þurrka upp eftir á,“ segir hún.
Samstarf við heilbrigðisráðherra
Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fór á fundi Velferðarvaktarinnar yfir þróun brotthvarfs úr skólakerfinu síðustu árin og upplýsti um þá vinnu sem stendur yfir í ráðuneytinu til að mæta þeim vanda. „Þrátt fyrir þær góðu fréttir að hlutfall brautskráðra nemenda hafi hækkað og hlutfall þjóðarinnar sem ekki hefur lokið meira en tveggja ára menntun úr framhaldsskóla hafi lækkað er það mikil áskorun að vinna að því minnka það brotthvarf sem sannarlega á sér stað,“ segir Lilja.
Samkæmt frétt ráðuneytisins hefur Lilja fundað með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um samstarf um aukið aðgengi framhaldsskólanemenda að geðheilbrigðisþjónustu og er sú vinna í fullum gangi. Segir jafnframt í fréttinni að auknu fjármagni hafi líka verið úthlutað til framhaldsskóla til þess að mæta betur þörfum nemenda sem líklegir eru til að hverfa frá námi.