„Um allan heim eru fyrirtæki, stjórnvöld og menntastofnanir að láta reyna á ólíkar nálganir og hugmyndir um hvernig skapa má tækifæri úr því sem kallað hefur verið fjórða iðnbyltingin. Umræðan um áhrif tækni á vinnu er jú orðin kunnugleg. Í fyrri ritum Vísbendingar höfum við meðal annars spurt hvað þessi þróun þýðir fyrir menntakerfið okkar, fyrir stjórnvöld og fyrir vinnuveitendur. Breytingar á vinnumarkaði á heimsvísu koma til með að skapa nýja heimsmynd og spurning hvar í þeirri mynd íslenskur vinnumarkaður kemur til með að lenda. Við höfum tækifæri í þessu til að nýta smæð okkar og sveigjanleika.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Lilju Daggar Jónsdóttur, hagfræðings og MBA frá Harvard háskóla, í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda í dag.
Lilja Dögg hefur skrifað ítarlegar greinar að undanförnu um þær breytingar sem eru að verða á mannauði fyrirtækja og hins opinbera vegna tækniframfara og breytinga.
„Þegar við byrjum að velta fyrir okkur hvaða leið við Íslendingar veljum eru spurningar áleitnar: Hvaða störf viljum við? Hvernig tryggjum við að skólar útskrifi fólk sem er hæft til þeirra starfa sem til eru? Hvernig hjálpum við fólki sem missir vinnuna til að takast á við breytingar? Stærð áskorunarinnar er slík að svarið hlýtur að krefjast þess að allir aðilar vinnumarkaðar grípi til aðgerða - og það sem meira er, slíkar aðgerðir þurfa að vera samræmdar. Við upphaf þessarar vegferðar getur verið gagnlegt að sækja innblástur og hugmyndir þangað sem vel er gert,“ segir Lilja Dögg.
Fjallað er sérstaklega um hvernig Danir hafa undirbúið sig fyrir þessar miklu breytingar, sem þegar eru byrjaðar að koma fram, og síðan einnig hvernig stórfyrirtækið AT&T hefur nálgast þessi mál.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.