Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, vill að íslenskur sjávarútvegur fái að dafna í framtíðinni og njóta sannmælis sem atvinnugrein. Hann segir að veiðigjöld taki ekki mið af aðstæðum í umhverfi greinarinnar heldur þegar aðstæður hafi verið allt aðrar og betri. Þetta kom fram í ræðu sem hann flutti á aðalfundi Síldarvinnslunnar síðastliðinn miðvikudag og var birt á vef fyrirtækisins í dag. Þorsteinn er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar og Samherji er stærsti einstaki eigandi hennar.
Hagnaður Síldarvinnslunnar árið 2017 var 2,9 milljarðar króna. Samherjasamstæðan, sem starfar á sviði sjávarútvegs bæði hérlendis og erlendis, hagnaðist um 86 milljarða króna á árunum 2010-2016. Árið 2016 var hagnaður hennar fyrir afskriftir og fjármagnsliði 17 milljarðar króna.
Þorsteinn sagði í ræðu sinni að Síldarvinnslan færi ekki varhluta af breytingum á gengi krónunnar, hækkun sumra kostnaðarliða og sveiflum í afurðarverði alþjóðalega. Allt væru þetta þó breytur sem væri erfitt að stjórna og hafa áhrif á.
Hins vegar væru aðrar breytingar sem Íslendingar hefðu stjórn á. Þar nefndi hann til að mynda veiðigjöld og sagði að Síldarvinnslan hefði greitt 250 milljónir króna í slík á fyrstu fjórum mánuðum yfirstandandi fiskveiðiárs. „Veiðigjöldin taka ekki mið af aðstæðum í umhverfi okkar í dag heldur þegar aðstæður voru allt aðrar og betri. Til samanburðar borgar Orkuveita Reykjavíkur engin gjöld þrátt fyrir afnot af vatnsauðlindum en hagnaður hennar á síðasta ári nam 16,3 milljörðum króna. Í þessu sambandi má einnig nefna að húshitunarkostnaður er mjög breytilegur eins og alkunna er, en hluti landsmanna á kost á að kynda með heitu vatni sem óneitanlega er sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Í Neskaupstað kostar til dæmis tvöfalt meira að kynda 140 fermetra hús en í Reykjavík.“ Orkuveita Reykjavíkur er að öllu leyti í opinberri eigu.
Þorsteinn tók líka dæmi af auknum kostnaði við eftirlitsmann um borð í frystiskipi, kolefnisgjöld sem flotinn þarf að greiða og stimpilgjöld sem greidd eru þegar ný skip eru keypt.
Hann sagði að fyrirtæki eins og Síldarvinnslan veiti mörgum atvinnu og skapi störf sem mörg hver eru vel launuð og eftirsótt. „Margfeldisáhrif fyrirtækja eins og Síldarvinnslunnar eru ótvíræð. Þrátt fyrir þetta verður að viðurkennast að sátt um greinina er vart til staðar þó hún sé skattlögð langt umfram aðrar atvinnugreinar. Þá ber að hafa í huga að íslenskur sjávarútvegur er í samkeppni við sjávarútveg annarra þjóða en erlendis finnst engin hliðstæða hvað álögur varðar. Vonandi fær íslenskur sjávarútvegur að dafna í framtíðinni og njóta sannmælis sem atvinnugrein. Það er staðreynd að utan fjármálafyrirtækja og opinberra aðila eru fjögur sjávarútvegsfyrirtæki hæstu skattgreiðendur landsins ásamt Icelandair og Síldarvinnslan er í þeim hópi.“
Samkvæmt nýlegri spá, sem gerð var fyrir stjórnvöld, segir að tekjur sjávarútvegs hafi dregist saman úr 249 milljörðum króna árið 2016, sem var metár, í 240 milljarða króna í fyrra.
Samanlagðar arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja frá byrjun árs 2010 og út árið 2016 voru 65,8 milljarðar króna. Eigið fé þeirra frá hruni og til loka árs 2016 batnaði um 300 milljarða króna. Því hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um 365,8 milljarða króna á örfáum árum.
Hæstu veiðigjöldin greiddi sjávarútvegurinn vegna fiskveiðiársins 2012/2013, en þá greiddi útgerðin 12,8 milljarða króna í ríkissjóð vegna veiðigjalda. Árin þar á eftir lækkuðu gjöldin skref fyrir skref niður í 4,8 milljarða árið 2016. Áætlað er að þau verði rúmlega tíu milljarðar króna vegna yfirstandandi fiskveiðiárs.