Þrátt fyrir að alþjóðavæðing og aukið viðskiptafrelsi hafi skilað heilt yfir miklu hærri landsframleiðslu á mann í flestum ríkjum heims þá hefur ójöfnuður aukist. Lág- og millitekjuhópar hafa setið sérstaklega eftir og afleiðingin er meðal annars aukin uppgangur þjóðernispopúlisma og einangrunarhyggju.
Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, í sjónvarpsþætti Kjarnans á miðvikudag. Þáttinn má sjá í heild sinni hér að neðan.
Þorsteinn sagði það engum vafa undirorpið að ójöfnuður væri að aukast. Ef ekki yrði tekið á því þá grafi það undan því lýðræðislega umboði sem stjórnvöld í hverju landi hafa til þess að halda opnu viðskiptaumhverfi. Þetta sjáist á þróun mála víða í Austur-Evrópu, í Bandaríkjunum og því að Brexit hafi verið samþykkt í Bretlandi. „Þarna er þjóðernispopúlismi að rísa upp og kjósa gegn viðskiptafrelsinu, þrátt fyrir ávinninginn sem af því hefur hlotist, og kjósa aftur einangrunarstefnuna sem við reyndum fyrir tæpri öld síðan og virkaði bara ekki vel.“Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, var einnig gestur þáttarins. Hún sagði að það væri alþjóðleg krafa í í verkalýðshreyfingunni að fara með baráttu hennar „back to basics“ í átt að hefðbundinni stéttabaráttu. „Við sjáum það að ójöfnuður hefur aukist taktfast upp frá 1980. Þessi átt sem við vorum að fara að auka jöfnuð í heiminum og í hinum vestrænu samfélögum, að sá samfélagssáttmáli var rofinn. Eftir því sem ójöfnuður eykst því meiri verður krafan. Því meiri verður vitundin um að það sé stéttaskipting. Og því meiri verður krafan um róttæka stéttabaráttu.“
Drífa sagði að fréttir eins og þær sem borist hafa um miklar hækkanir á launum æðstu embættismanna og ofurlaunum forstjóra fyrirtækja í einkageiranum væru sem olía á eldinn. „Fólk situr eftir með þá tilfinningu að hér er að verða stigvaxandi ójöfnuður. Fólk er ekki að bera sanngjarnt úr býtum fyrir þá vinnu sem það innir af hendi. Það er greinilega til peningur til skiptanna og þá verður þessi núningur.“