Mark Zuckerberg hefur á undraskjótum tíma orðið einn af ríkustu mönnum heims. Hinn 33 ára gamali Zuckerberg byrjaði að efnast hratt eftir að Facebook varð til, en hann er einn stofnenda og nú forstjóri og stærsti eigandi fyrirtækisins.
Markaðsvirði þess nemur nú um 500 milljörðum Bandaríkjadala, eða um 50 þúsund milljörðum króna. Þessi verðmæti hafa orðið til á 14 ára tímabili, en þó að mestu á undanförnum áratug, þegar Facebook hóf að breiðast hratt út um heiminn. Nú eru virkir notendur yfir tveir milljarðar manna, og er miðillinn sérstaklega mikið útbreiddur á vesturlöndum.
Eftir að misnotkun fyrirtækisins Cambridge Analytica, með notendaupplýsingar Facebook, var gerð opinber þá hafa spjótin beins að Zuckerberg. Markaðsvirði Facebook hefur lækkað um 60 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 6 þúsund milljörðum. Það er upphæð sem nemur virði allra fasteigna á höfuðborgarsvæðinu, svo hún sé sett í íslenskt samhengi.
Fjallað var ítarlega um málið í Tæknivarpinu, í hlaðvarpi Kjarnans í vikunni.
.@elonmusk 'defriends' Mark Zuckerberg and deletes @SpaceX and @Tesla @facebook pages https://t.co/bk2ks7fYXd pic.twitter.com/hz9mPMqR54
— Business Insider (@businessinsider) March 23, 2018
Þrátt fyrir þetta eru virði eigna Zuckerbergs áætlað um 64 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 6.400 milljörðum króna, samkvæmt uppfærðum lista Forbes. Eignarhlutur Zuckerbergs er á milli 12 og 13 prósent af heildarvirði Facebook, en félagið er skráð á markað.
Ekki eru öll kurl komin til grafar enn hjá Facebook, en opinberar rannsóknir eru nú í gangi á starfsemi Cambridge Analytica, bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Í þessum rannsóknum beinast spjótinn að Facebook, ekki síst, og því hvernig fyrirtækið hefur farið með persónuupplýsingar notenda.